Innlent

Utan sótt­kvíar með þrjár mis­munandi tegundir breska af­brigðisins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir þá sem greindust með kórónuveiruna utan sóttkvíar um helgina með þrjár mismunandi gerðir af breska afbrigði veirunnar. Ekki hafi tekist að rekja þessi smit, sem sé áhyggjuefni.

Tíu greindust með kórónuveiruna um helgina; sex á laugardag og fjórir á sunnudag. Þar af voru þrír utan sóttkvíar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir gleðiefni að smittölur hafi haldist lágar síðustu daga. Smitin utan sóttkvíar séu hins vegar ákveðið áhyggjuefni.

„Þessir þrír sem eru að greinast utan sóttkvíar virðast vera með mismunandi tegundir af breska afbrigðinu sem við höfum ekki fundið á landamærum, sem þýðir að einhvern veginn hafa þessi smit komist inn í landið fram hjá þeim girðingum sem við erum með á landamærum og það vekur ákveðnar áhyggjur.“

Vonar að búið sé að ná utan um Laugarnesskólasýkinguna

Ekki hefur náðst að tengja þá sem greindust utan sóttkvíar við önnur smit. Þeir sem voru í sóttkví við greiningu tengjast hópsýkingu sem kennd hefur verið við Laugarnesskóla. Ekki greindust fleiri börn í skólanum með veiruna eftir skimun helgarinnar.

Teljið þið ykkur búin að ná utan um þessa hópsýkingu sem tengd er við Laugarnesskóla?

„Ég vona það. Það geta fleiri átt eftir að greinast í sóttkví. Það eru mjög margir í sóttkví. En það er aðallega í kringum hin tilfellin, utan sóttkvíar, sem maður gæti haft áhyggjur af því hvort hafi náð að breiða úr sér,“ segir Þórólfur.

Sem betur fer þurfi ekki margir að fara í sóttkví vegna þeirra sem greindust utan sóttkvíar. Þetta fólk hafi jafnframt ekki verið á fjölmennum stöðum.

„Auðvitað er alltaf þannig að fólk fer á ýmsa staði en það eru engir stórir eða fjölmennir staðir sem menn hafa verið að finna.“

Ekki tilefni til að lengja sóttkvíartímann

Frá og með 1. apríl verður skimun barna tekin upp við landamærin, auk þess sem fólk sem kemur til landsins frá ákveðnum svæðum verður skyldað í sóttvarnahús. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður fyrirkomulagið í sóttvarnahúsi til umræðu á fundi ráðherranefndar síðdegis í dag. 

Þórólfur telur ekki tilefni til að til dæmis lengja sóttkvíartímann við komuna til landsins í ljósi samfélagssmitsins síðustu daga.

„Það sem við höfum verið að tala um er að skerpa á ýmsum hlutum. Ég er ekki viss um að það myndi skila neinu sérstöku að lengja sóttkvíartímann. Veiruafbrigðið, það fjölgar sér fyrr í nefinu virðist vera, eins og Íslensk erfðagreining hefur bent á. Þannig að ég er ekki viss um að það myndi hjálpa mikið,“ segir Þórólfur.

„Hins vegar höfum við séð að það þarf að fylgjast betur með fólki sem er í sóttkví. Við höfum séð smit vegna þess að fólk er að brjóta sóttkví. Við erum líka að taka upp núna 1. apríl sýni frá börnum sem við höfum ekki gert fram að þessu.“


Tengdar fréttir

Óhugnanlega margir miðað við faraldurinn og fólk beðið um að huga að smitvörnum

Fljúgandi hálka er á gönguleiðum við Geldingardali og lögregla biður fólk um að vera vel útbúið með hálkubrodda. Koma þurfti nokkrum til aðstoðar í gær sem ýmist duttu eða tognuðu á leiðinni. Björgunarsveitarmaður segir óhugnalega marga á svæðinu með tilliti til faraldursins og biður fólk um að huga að smitvörnum.

Telja líklegast að veiran hafi borist úr dýrum

Líklegast er að nýtt afbrigði kórónuveirunnar hafi borist úr leðurblökum í menn í gegnum aðra dýrategund samkvæmt niðurstöðum sameiginlegrar rannsóknar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og kínverskra stjórnvalda. „Afar ólíklegt“ er talið að veiran hafi sloppið út af tilraunastofu eins og samsæriskenningar hafa verið um.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×