Fótbolti

„Eigum alveg rétt á að vera á þessu móti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leiknum í Györ í dag.
Úr leiknum í Györ í dag. getty/Chris Ricco

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U-21 árs landsliðsins, kvaðst nokkuð sáttur með frammistöðu Íslands gegn Danmörku á EM í dag. Danir unnu leikinn, 2-0, og tryggðu sér þar með sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði. Við áttum að skora og galopna leikinn. Byrjunin var erfið en við unnum okkur vel í leikinn. Ég er fyrst og fremst stoltur af strákunum. Við skildum allt eftir á vellinum,“ sagði Davíð á blaðamannafundi eftir leikinn.

Danir skoruðu tvö mörk á fyrstu nítján mínútum leiksins og létu þar við sitja. Fyrra markið kom eftir gott spil hjá danska liðinu og það síðara eftir hornspyrnu.

„Þetta eru augnablik sem geta breytt leikjum. En þetta eru bara tvö góð lið að spila. Þeir gerðu þetta vel í fyrsta markinu og svo fast leikatriði sem við komum ekki í veg fyrir,“ sagði Davíð.

Hann var ánægður hvernig íslenska liðið svaraði mótlætinu sem það lenti í upphafi leiksins.

„Við höldum alltaf áfram og erum með góð liðsheild og góða leikmenn. Við eigum alveg rétt á að vera á þessu móti,“ sagði Davíð.

Ísak Óli Ólafsson fór meiddur af velli þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka. Að sögn Davíðs fékk Keflvíkingurinn krampa.

Sveinn Aron Guðjohnsen lét mikið til sín taka í leiknum og Davíð fannst hann ekki fá mikið frá dómaranum.

„Hann stóð sig prýðilega. Þeir áttu í stökustu vandræðum með hann. Ég hefði viljað fá fleiri aukaspyrnur en þetta voru sterkir strákar að berjast,“ sagði Davíð.


Tengdar fréttir

Davíð Snorri: Stoltur af liðinu

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 árs landsliðs karla, kvaðst stoltur af liði sínu eftir 0-2 tap gegn Danmörku í lokakeppni EM sem fram fer í Ungverjalandi þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×