Innlent

Löngu búinn að láta tattúa yfir Samfylkingarmerkið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Páll Valur hefur látið tattúvera yfir Samfylkingarmerkið en er enn með merki Bjartrar framtíðar á upphandleggnum.
Páll Valur hefur látið tattúvera yfir Samfylkingarmerkið en er enn með merki Bjartrar framtíðar á upphandleggnum.

„Ég er löngu búinn að láta tattúa yfir það!“ svarar Páll Valur Björnsson, spurður að því hvort hann hyggist láta fjarlægja Samfylkingar-merkið af framhandlegg sínum eftir að hafa verið hafnað við uppstillingu á lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Það var Fjölnir Geir Bragason, Fjölnir „tattú“, sem skreytti Pál með Samfylkingarmerkinu árið 2017. Þá var hann fyrir með skammstöfunina SÁÁ, eftir að hann fór í meðferð hjá samtökunum, æðruleysisbænina, nafn Vopnafjarðarbæjar, þar sem hann ólst upp í bænum, og mynd af Alþingishúsinu. 

Svona svo eitthvað sé nefnt.

Merki Bjartrar framtíðar lét hann húðflúra á sig þegar hann var þingmaður flokksins.

En nýja flúrið, sem fór ofan á Samfylkingarmerkið, var ekki sett þar vegna óvildar í garð flokksins. „Nei, ég sá strax eftir því. Það var svo stórt!“

Þá bendir Páll á að hann sé enn bæjarfulltrúi flokksins í Grindavík og sé ekkert á leiðinni að „rjúka úr Samfylkingunni með látum“. Hann, og fleiri, séu hins vegar alls ekkert sáttir við það hvernig raðað var á lista fyrir þingkosningarnar í haust.

„Við vorum fjögur sem gáfum kost á okkur opinberlega en í annað sætið er verið að sækja fólk sem var tilnefnt en var ekki endilega að sækjast eftir því,“ nefnir Páll sem dæmi. Hann hafi verið spurður hvort umleitan hans eftir fyrsta eða öðru sæti væri bindandi og hann svarað já.

„Ég hafði mikinn metnað til að ráðast í þetta verkefni og gera vel,“ segir hann. Honum hefði hins vegar verið hafnað. „En ég er hokinn af reynslu þegar kemur að höfnun,“ segir Páll léttur í bragði og bendir á að hann hafi verið síðasti þingmaðurinn til að detta inn morguninn eftir þingkosningarnar 2013.

„Svo var ég í fótboltanum líka,“ bætir hann við. „Ég kann alveg að tapa.“

Jæja þá liggur það ljóst fyrir að ég mun ekki skipa sæti á lista Samfylkingarinnar hér í Suðurkjördæminu góða. Ég tók þá...

Posted by Páll Valur Björnsson on Wednesday, March 24, 2021


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×