Fótbolti

„Ekki að spila nóg til að vera val­inn í A-landsliðið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen hefur ekki verið í náðinni hjá OB á þessu tímabili.
Sveinn Aron Guðjohnsen hefur ekki verið í náðinni hjá OB á þessu tímabili. getty/Lars Ronbog

Sveinn Aron Guðjohnsen segir að hann sé ekki að spila nóg með félagsliði sínu til að gera tilkall til sætis í A-landsliðinu.

Sveinn Aron er í láni hjá danska úrvalsdeildarliðinu OB frá Spezia á Ítalíu. Hann hefur fengið fá tækifæri með OB á tímabilinu og aðeins spilað 102 mínútur í dönsku úrvalsdeildinni.

„Staðan hjá mér hjá OB hef­ur ekki verið góð. Ég hef ekk­ert fengið að spila. Það er erfitt að fá að vera ekki með en maður þarf að sýna þol­in­mæði,“ sagði Sveinn Aron á blaðamannafundi í Györ í Ungverjalandi í dag.

Þar leikur íslenska U-21 árs landsliðið leiki sína á EM. Sveinn Aron skoraði mark Íslands í 4-1 tapi fyrir Rússlandi í gær.

Aðspurður hvort hann teldi sig vera nálægt A-landsliðinu svaraði Sveinn Aron heiðarlega.

„Á þess­um tíma­punkti er ég ekki að spila nóg til að vera val­inn í A-landsliðið. Ég býst ekki við kall­inu strax,“ sagði framherjinn.

Sveinn Aron var valinn í fyrsta sinn í A-landsliðið fyrir leik þess gegn Englandi í Þjóðadeildinni síðasta haust en kom ekkert við sögu í honum.

Ísland mætir Danmörku í öðrum leik sínum á EM U-21 árs liða á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 13:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×