Fótbolti

Danir með ó­væntan sigur á Frökkum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danir fagna sigurmarki sínu í kvöld.
Danir fagna sigurmarki sínu í kvöld. @GonzalesPhotoDK

Danmörk gerði sér lítið fyrir og vann Frakkland óvænt 1-0 í riðli okkar Íslendinga á EM U-21 árs landsliða í knattspyrnu í kvöld. Portúgal vann sömuleiðis 1-0 sigur á Króatíu í D-riðli.

Ísland tapaði 4-1 gegn Rússlandi í fyrri leik C-riðils í dag. Í þeim síðari mættust Danmörk og Frakkland. Fyrir leik var búist við sigri Frakkana enda með einkar sterkt lið, annað kom þó á daginn.

Frakkarnir voru meira með boltann og áttu vissulega fleiri skot í leiknum en staðan var samt sem áður markalaus. Raunar var hún markalaus allt fram á 75. mínútu þegar Anders Dreyer kom Dönum yfir eftir sendingu Jacob Bruun Larsen.

Reyndist það eina mark leiksins og lokatölur því 1-0 Dönum í vil. Danir eru því með þrjú stig fyrir leikinn gegn Íslandi á sunnudag á meðan Frakkar verða að vinna Rússa sama dag ætli þeir sér áfram í 8-liða úrslit.

Í D-riðli vann Portúgal 1-0 sigur á Króatíu þökk sé marki Fabio Vieira á 73. mínútu leiksins. Portúgal og Sviss nú með þrjú stig í D-riðli en síðarnefnda liðið vann England 1-0 fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×