Innlent

Komu eins og frelsandi englar og báru bíla í burtu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fagnaðarlæti fylgdu aflraunum Norðmannanna sem voru hinir hressustu.
Fagnaðarlæti fylgdu aflraunum Norðmannanna sem voru hinir hressustu.

Umferðaröngþveiti hefur verið á Suðurstrandarvegi undanfarna daga þar sem hver göngumaðurinn á fætur öðrum hefur mætt til að bera eldgosið í Geldingadal augum. Ástand myndaðist á veginum í gær en þá komu norskir hermenn til bjargar.

Einar Skúlason göngumaður er einn þeirra sem lagt hefur leið sína suður með sjó til að bera náttúrufegurðina augum. Hann varð vitni að uppákomunni í gær og gerir að umtalsefni á Facebook.

„Í umferðaröngþveitinu við gosstöðvarnar í gær hafði mörgum bílum verið lagt þannig að þeir tepptu einbreiða umferð bíla. Allt var fast í hnút um kvöldmatarleytið og enginn komst áfram.“

Þá voru góð ráð dýr. Hjálpin var handan við hornið.

„Norskir hermenn úr loftrýmisgæslunni á Keflavíkurflugvelli höfðu verið að skoða gosstöðvarnar og lentu auðvitað í sama hnútnum og aðrir þegar rútur þeirra voru að reyna að komast áfram,“ segir Einar.

Þeir hafi svo sannarlega verið lausnarmiðaðir og tekið málin í sínar hendur. Gengið á undan rútunum og einfaldlega fært þá bíla sem þurfti að færa. Þannig hafi umferðarhnúturinn verið úr sögunni.

„Þeir komu eins og frelsandi englar,“ segir Einar við Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×