Innlent

Rýma Geldingadal: Gasmengun í dældum gæti nálgast lífshættuleg gildi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jarðvísindamenn við mælingar við eldgosið í Geldingadal í dag. Varað er við því að gas úr iðrum jarðar geti safnast fyrir í dældum þegar lægir síðdegis og í kvöld.
Jarðvísindamenn við mælingar við eldgosið í Geldingadal í dag. Varað er við því að gas úr iðrum jarðar geti safnast fyrir í dældum þegar lægir síðdegis og í kvöld. Vísir/Egill

Nágrenni eldgossins í Geldingadal verður rýmt klukkan 17:00 í dag en Veðurstofan varar við því að hættulegar gastegundir geti safnast fyrir í lægðum og dældum þegar veður lægir. Styrkur gassins þar gæti verið lífshættulegur.

Draga á smám saman úr suðvestlægum vindi á gosstöðvunum í dag. Eftir klukkan 19:00 er gert ráð fyrir að vindur verði undir þremur metrum á sekúndu. Því hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum hvatt fólk sem leggur leið sína að gosinu að yfirgefa svæðið fyrir klukkan 17:00 í dag.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að þegar lægir geti magn brennisteinsdíoxíðs nálægt eldstöðinni farið yfir 9.000 míkrógrömm á rúmmetra. Þegar styrkurinn fer yfir þau mörk segir Umhverfisstofnun að allir séu líklegir til að finna fyrir miðlungs- eða alvarlegum einkennum frá öndunarfærum ef þeir dvelja í tíu til fimmtán mínútur þar sem slíka mengun er að finna.

„Því getur skapast mikil hætta fyrir fólk sem er þar á staðnum. Miðað við vindaspá næst gosstöðvunum er því líklegt að loftgæði í næsta nágrenni gosstöðvanna og að gasmengun frá CO2 í dældum og lægðum nálgist lífshættuleg gildi,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Fólki er ráðlagt að halda sig uppi á hæðum og fara ekki niður í dali eða dældir í næsta nágrenni gosstöðvanna og að halda sér innan stikuðu gönguleiðarinnar.

Gas rís frá eldstöðinni í Geldingadal á Reykjanesi þriðjudaginn 23. mars árið 2021.Vísir/Egill


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.