Draga á smám saman úr suðvestlægum vindi á gosstöðvunum í dag. Eftir klukkan 19:00 er gert ráð fyrir að vindur verði undir þremur metrum á sekúndu. Því hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum hvatt fólk sem leggur leið sína að gosinu að yfirgefa svæðið fyrir klukkan 17:00 í dag.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að þegar lægir geti magn brennisteinsdíoxíðs nálægt eldstöðinni farið yfir 9.000 míkrógrömm á rúmmetra. Þegar styrkurinn fer yfir þau mörk segir Umhverfisstofnun að allir séu líklegir til að finna fyrir miðlungs- eða alvarlegum einkennum frá öndunarfærum ef þeir dvelja í tíu til fimmtán mínútur þar sem slíka mengun er að finna.
„Því getur skapast mikil hætta fyrir fólk sem er þar á staðnum. Miðað við vindaspá næst gosstöðvunum er því líklegt að loftgæði í næsta nágrenni gosstöðvanna og að gasmengun frá CO2 í dældum og lægðum nálgist lífshættuleg gildi,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Fólki er ráðlagt að halda sig uppi á hæðum og fara ekki niður í dali eða dældir í næsta nágrenni gosstöðvanna og að halda sér innan stikuðu gönguleiðarinnar.
