Innlent

Bilun í tækjabúnaði tafði greiningu Covid-sýna í gær

Eiður Þór Árnason skrifar
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans. Vísir/Baldur

Bilun kom upp í greiningartæki sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans í gær sem tafði greiningu Covid-sýna. Ekki er reiknað með að það verði marktækar tafir á greiningu sýna í dag.

„Það er einhver smá bilun í nýja tækinu sem er verið að greina og tæknimaður er að vinna í því núna,“ segir Karl Gústaf Kristinsson, yfirlæknir deildarinnar, í samtali við Vísi.

Hann segir að bilunin hafi haft áhrif á afkastagetu deildarinnar í gær þar sem fara þurfti tímafrekari leið til að greina sýnin og nýta eldri tækjabúnað. Það hafi leitt til einhverra tafa en deildin hafi í morgun náð að klára síðustu sýnin sem komu inn í gær.

„Þetta dregur úr afkastagetunni en það er ekki það mikið af sýnum sem eru að koma inn svo við ráðum alveg við það án þess að vera með nýja tækið.“

Getur greint um fjögur þúsund sýni á sólarhring

Enn er ekki búið að finna orsök bilunarinnar en Karl vonast til að búið verði að gera við tækið sem allra fyrst. Umrætt greiningartæki er af gerðinni Roche Cobas 8800 og er talið vera eitt það fullkomnasta og afkastamesta sinnar tegundar í heiminum.

Getur það greint um fjögur þúsund sýni á sólarhring og er mun sjálfvirkara og afkastameira en önnur greiningartæki deildarinnar. Uppsetningu þess lauk í febrúar eftir nokkrar tafir á afhendingu en framleiðendur tækjabúnaðarins hafa átt erfitt með að fullnægja eftirspurn í heimsfaraldrinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Nýtt Covid-greiningartæki verði loks klárt í febrúar

Nýtt greiningartæki Landspítala, sem á meðal annars að nýtast við greiningar á Covid-19, hefur enn ekki verið tekið í notkun. Tækið var keypt síðasta sumar og stóðu þá vonir til að það yrði tekið í gagnið í nóvember, en nú standa hins vegar vonir til að það verði í febrúar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.