Innlent

Einn greindist innanlands í gær

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, við Ráðherrabústaðinn í morgun.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, við Ráðherrabústaðinn í morgun. Vísir/Vilhelm

Einn einstaklingur greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Hann var í sóttkví.

Þetta kom fram í viðtali fréttastofu við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, eftir fund hans með formönnum ríkisstjórnarflokkanna í Ráðherrabústaðnum í morgun. Enginn greindist á landamærunum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boðaði til fundarins í morgun. Þórólfur sagði að á fundinum hefði farið yfir stöðuna á faraldrinum bæði hér á landi og erlendis og stöðuna varðandi til dæmis bóluefni og bólusetningar.

Þórólfur sagði að næstu daga yrði fylgst með því hvort fólk utan sóttkvíar fari að greinast í auknum mæli með veiruna. Það muni stýra því hvort hann leggi til hertari aðgerðir innanlands.

„Við erum að fylgjast með því hvort við förum að greina fólk utan sóttkvíar sem bendir þá til samfélagslegs smits og það er það sem mun stýra því frá minni hlið hvort ég komi með tillögur um einhverjar hertari aðgerðir. Þannig að ég bíð aðeins og sé til,“ sagði Þórólfur.

Hann hefur hins vegar skilað Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, minnisblaði varðandi aðgerðir á landamærunum. Hann sagði að þar væri ekki beinlínis verið að herða aðgerðir á landamærum heldur skerpa á nokkrum þáttum.

Meðal annars leggur hann til að ferðalangar frá tilteknum áhættusvæðum verði skikkaðir til þess að dvelja í sóttvarnarhúsi í fimm daga sóttkvínni sem skylda er að fara í á milli landamæraskimananna tveggja.

„Því við erum að sjá þessi smit sem eru að koma inn, þau koma í tengslum við það að fólk er ekki að halda fyrir sóttkví eins og það á að gera og við viljum reyna að girða fyrir það.“

Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan hálftíu, að loknum fundi Þórólfs með formönnunum þremur, og verður minnisblaðið til umræðu þar.

Viðtal Heimis Más Péturssonar, fréttamanns, við Þórólf má sjá í spilaranum ofar í fréttinni.

Fréttin hefur verið uppfærð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×