Innlent

Dæmdir í fangelsi vegna bíl­stuldar og líkams­á­rásar í Sælings­dal

Sylvía Hall skrifar
Reykhólasveit á Vestfjörðum.
Reykhólasveit á Vestfjörðum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi á föstudag tvo menn í fangelsi fyrir að hafa stolið bifreið í Reykhólasveit á síðasta ári. Annar mannanna, sem hafði verið sviptur ökuréttindum, ók bifreiðinni undir áhrifum áfengis og amfetamíns og valt hún þegar förinni var heitið suður Vestfjarðarveg við Klofningsveg.

Eftir bílveltuna hafði vegfarandi ætlað að koma mönnunum og konu sem var með í för til aðstoðar. Veittist þá annar þeirra að manninum; tók hann kverkataki, sló hann ítrekað með krepptum hnefa í andlitið og veitti honum hnéspark í andlitið.

Ekki var kveðinn upp dómur varðandi ákæruliði konunnar þar sem hún var stödd erlendis í fíknimeðferð og var mál hennar aðskilið frá máli mannanna tveggja sökum þess. 

Mennirnir játuðu brot sín fyrir dómi en báðir áttu að baki nokkurn sakaferil. Sá sem veittist að manninum hafði áður hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot sem og fíkniefnabrot. Ökumaður bílsins hafði verið sviptur ökuréttindum ævilangt vegna aksturs undir áhrifum áfengis- og fíkniefna og var sú svipting áréttuð í dómsorði.

Sá sem veittist að manninum hlaut sex mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm og dæmdur til að greiða brotaþola 250 þúsund krónur í miskabætur. Ökumaður bílsins var dæmdur til níutíu daga fangelsisvistar og mun þurfa að greiða eiganda bílsins 1,1 milljón vegna tjóns á bílnum. Báðum var gert að greiða sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×