Fótbolti

Zlatan táraðist þegar hann var spurður um fjölskylduna

Sindri Sverrisson skrifar
Zlatan Ibrahimovic bæði sló á létta strengi og átti erfitt með að halda aftur af tárunum á blaðamannafundinum í dag.
Zlatan Ibrahimovic bæði sló á létta strengi og átti erfitt með að halda aftur af tárunum á blaðamannafundinum í dag. AP/Jonas Ekstromer

„Þetta er ekki góð spurning frá þér,“ sagði Zlatan Ibrahimovic þegar hann var spurður hvernig fjölskylda hans hefði tekið því að hann færi aftur í sænska landsliðið í fótbolta. Zlatan sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag eftir endurkomuna í landsliðið.

Zlatan er í sænska landsliðshópnum sem mætir Georgíu á fimmtudaginn og Kósóvó á sunnudag, í undnakeppni HM. Hann hefur ekki spilað með sænska landsliðinu síðan á EM 2016.

Zlatan táraðist þegar hann var spurður hvernig fjölskyldan hefði tekið ákvörðun hans um að snúa aftur í landsliðið. Zlatan á synina Maximilian, sem er 14 ára, og Vincent, sem er 13 ára, með konu sinni Helenu Seger.

„Þetta er ekki góð spurning. Ég var með Vincent hérna, sem grét þegar ég fór frá honum. En þetta er í lagi. Þetta er í lagi,“ sagði Zlatan og þurrkaði tárin úr augunum.

Nýr kafli í treyju númer ellefu

Zlatan klæddist treyju númer 10 þegar hann lék með landsliðinu en nú verður hann í treyju númer 11. Síðustu ár hefur Emil Forsberg frá RB Leipzig verið númer 10 en Alexander Isak frá Real Sociedad númer 11.

„Ég bað vinsamlega um það hvort ég gæti fengið ellefuna. Þá sagði Isak að ég gæti fengið hana ef að hann fengi hana aftur eftir sex til sjö ár,“ sagði Zlatan.

Zlatan sagði treyjunúmer ekki skipta miklu máli og að Emil Forsberg hefði boðist til að láta hann fá tíuna.

„Emil sagði að ég ætti að taka tíuna en þá sagði ég: „Nei, þú skalt vera með tíuna. Þetta er nýr kafli.““




Fleiri fréttir

Sjá meira


×