Íslenski boltinn

Leik­maður Fylkis smitaður

Atli Ísleifsson og Óskar Ófeigur Jónsson skrifa
Fylkismenn fagna marki í Pepsi Max deildinni.
Fylkismenn fagna marki í Pepsi Max deildinni. Vísir/Bára

Leikmaður karlaliðs Fylkis er smitaður af kórónuveirunni en liðið mætti Stjörnunni í Lengjubikarnum á laugardaginn. 

Mbl segir frá þessu og segir að leikmenn beggja liða þurfi að fara í sóttkví. Samkvæmt upplýsingum Vísis hafa leikmenn Stjörnunnar þó ekki verið skikkaðir í eiginlega sóttkví en þeim tilmælum beint til þeirra frá sóttvarnateyminu að fara varlega.

Liðin mættust í átta liða úrslitum Lengjubikarsins á Samsung-vellinum í  Garðabæ á laugardaginn. Lauk leiknum með 4-2 sigri Stjörnunnar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. „Það gæti alveg verið í tengslum við smit hérna um helgina – já það gæti alveg verið,“ sagði Þórólfur. 

Hann segir að nokkrir hefðu greinst innanlands um helgina en endanleg tala lægi ekki fyrir. Ekki hefðu allir verið í sóttkví og smitin tengjast ekki öll. Það sé því greinilegt að það sé eitthvað innanlandssmit í gangi sem sé að koma fram.

Stjarnan vann leikinn sem fyrr segir 4-2 og mætir Val í undanúrslitunum 1. apríl næstkomandi eða eftir tíu daga.

Hilmar Árni Halldórsson, Þorsteinn Már Ragnarsson, Brynjar Gauti Guðjónsson og Kári Pétursson skoruðu mörk Stjörnunnar í leiknum en þeir Þórður Gunnar Hafþórsson og Arnór Borg Guðjohnsen höfðu komið Fylki í 2-0 í fyrri hálfleiknum.

Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.