Innlent

Magnað myndskeið af gosinu: Kvikan fossaði niður þegar gígurinn hrundi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Eldgos við Fagradallsfjall.
Eldgos við Fagradallsfjall. Vísir/Vilhelm

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosstöðvunum í dag og var þónokkur fjöldi fólks, bæði almenningur og viðbragðsaðilar, á svæðinu þegar frétta- og tökumenn Stöðvar 2 voru á svæðinu í dag.

Sigurjón Ólason, tökumaður á fréttastofu Stöðvar 2 náði ótrúlegum myndum af því þegar hrundi úr vegg stærsta gígsins í Geldingadal og logandi kvikan fossaði niður líkt og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Ekki svo langt frá stóð hópur björgunarsveitarmanna sem fylgdist með sjónarspilinu.

Aftar í myndbandinu má einnig sjá hvar fólk stillir sér upp fyrir framan gíginn til að taka sjálfsmynd af sér með eldgosinu. Í öðru myndbandi sem jafnframt má finna hér að neðan má einnig sjá magnaðar myndir af gosinu sem Björn Steinbekk tók á dróna.

Kristján Már Unnarsson fréttamaður var á vettvangi í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann lýsti aðstæðum og vakti athygli á því að í kvöld hefur verið bæði kalt og leiðinlegt veður. „Það er kalt hérna, það er blautt hérna og það er rudda landslag,“ sagði Kristján Már. Þeir sem hyggja á að leggja leið sína að gosinu ættu því að huga að því að vera vel búnir áður en haldið er af stað. Þar að auki er mikilvægt að hafa í huga þær hættur sem það getur haft í för með sér að koma nálægt eldgosinu líkt og almannavarnir hafa vakið athygli á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×