Fótbolti

Sjáðu þegar Pogba skaut United áfram og þrennuna sem sökkti Spurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir nokkurra vikna fjarveru sneri Paul Pogba aftur í lið Manchester United í gær og skoraði sigurmarkið gegn AC Milan.
Eftir nokkurra vikna fjarveru sneri Paul Pogba aftur í lið Manchester United í gær og skoraði sigurmarkið gegn AC Milan. getty/Jonathan Moscrop

Paul Pogba var hetja Manchester United gegn AC Milan í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær. Ekki gekk jafn vel hjá Lundúnaliðunum Tottenham og Arsenal þótt síðarnefnda liðið hafi komist áfram.

Pogba kom inn á sem varamaður í hálfleik í leik United og Milan á San Siro og var ekki lengi að láta að sér kveða. Á 48. mínútu skoraði franski heimsmeistarinn með góðu skoti yfir Gianluigi Donnarumma í marki Milan.

Fyrrverandi leikmaður United, Zlatan Ibrahimovic, komst næst því að jafna fyrir Milan en Dean Henderson varði skalla hans á 74. mínútu. United fór áfram, 2-1 samanlagt.

Tottenham var í góðri stöðu fyrir seinni leikinn gegn Dinamo Zagreb eftir 2-0 sigur í þeim fyrri fyrir viku. Króatíska liðið sneri hins vegar dæminu sér í vil á heimavelli í gær.

Mislav Orsic skoraði öll mörk Dinamo í 3-0 sigri. Sigurmarkið kom í upphafi seinni hálfleiks framlengingarinnar.

Það sauð á José Mourinho, knattspyrnustjóra Tottenham, eftir leikinn og hann sakaði sína menn um vanmat og værukærð.

Þrátt fyrir að hafa fengið fjölmörg góð færi tapaði Arsenal fyrir Olympiakos á heimavelli, 0-1. Youssef El Arabi skoraði eina mark leiksins.

Þrátt fyrir tapið komst Arsenal áfram en liðið vann fyrri leikinn í Grikklandi með þremur mörkum gegn einu.

Mörkin úr leikjum ensku liðanna í Evrópudeildinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Ensku liðin í Evrópudeildinni

Dregið var í átta liða og undanúrslit Evrópudeildarinnar í hádeginu í dag. United mætir Granada í átta liða úrslitunum en Arsenal Slavia Prag. Svo gæti farið að United og Arsenal mættust í úrslitaleik keppninnar í Gdánsk í Póllandi 26. maí.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×