Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar en þar er greint frá því að tilkynningarskylda á fæðubótarefnum annars vegar og íblöndun vítamína, steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli hins vegar, hefur verið felld niður.
„Athugið að ef drykkjarvara inniheldur hærra magn koffíns en 320mg/l þurfa matvælaframleiðendur eða dreifingaraðilar áfram að sækja um leyfi fyrir íblönduninni til Matvælastofnunar. Í þessum tilfellum er ekki um tilkynningarskyldu heldur um leyfisveitingu að ræða,“ segir á vef stofnunarinnar.
Þar segir einnig að tilgangurinn með tilkynningarskyldunni hafi verið að hafa yfirsýn yfir þau matvæli sem markaðssett eru á Íslandi.
„Móttaka tilkynningar fól því ekki í sér samþykki Matvælastofnunar fyrir tilkynntri vöru. Það eru matvælafyrirtækin, þ.e. stjórnendur þeirra, sem bera ábyrgð á því að matvælin sem þau framleiða og/eða dreifa séu í samræmi við gildandi reglur. Því er mikilvægt að kynna sér vel gildandi reglugerðir áður en markaðssetning matvara hefst á íslenskum markaði.“