Innlent

Ekki lengur þörf á að tilkynna fæðubótarefni né íblöndun koffíns í litlu magni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áfram þarf að fá leyfi fyrir markaðssetningu drykkja sem innihalda mikið magn koffíns.
Áfram þarf að fá leyfi fyrir markaðssetningu drykkja sem innihalda mikið magn koffíns.

Matvælaframleiðendur og dreifingaraðilar þurfa ekki lengur að tilkynna markaðssetningu orkudrykkja sem innihalda minna en 320 mg/l af koffíni.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar en þar er greint frá því að tilkynningarskylda á fæðubótarefnum annars vegar og íblöndun vítamína, steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli hins vegar, hefur verið felld niður.

„Athugið að ef drykkjarvara inniheldur hærra magn koffíns en 320mg/l þurfa matvælaframleiðendur eða dreifingaraðilar áfram að sækja um leyfi fyrir íblönduninni til Matvælastofnunar. Í þessum tilfellum er ekki um tilkynningarskyldu heldur um leyfisveitingu að ræða,“ segir á vef stofnunarinnar.

Þar segir einnig að tilgangurinn með tilkynningarskyldunni hafi verið að hafa yfirsýn yfir þau matvæli sem markaðssett eru á Íslandi.

„Móttaka tilkynningar fól því ekki í sér samþykki Matvælastofnunar fyrir tilkynntri vöru. Það eru matvælafyrirtækin, þ.e. stjórnendur þeirra, sem bera ábyrgð á því að matvælin sem þau framleiða og/eða dreifa séu í samræmi við gildandi reglur. Því er mikilvægt að kynna sér vel gildandi reglugerðir áður en markaðssetning matvara hefst á íslenskum markaði.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×