Fótbolti

Ó­eining í Bæjara­landi og Flick gæti hætt eða verið sparkað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Flick vann Meistaradeildina með Bayern í sumar.
Flick vann Meistaradeildina með Bayern í sumar. Michael Regan/Getty

Þýska dagblaðið Bild greinir frá því að það sé kurr í Bæjaralandi sem gæti endað með því að Hansi Flick, þjálfari Bayern, gæti hætt eftir leiktíðina.

Gengi Bayern hefur verið gott á leiktíðinni, eins og vanalega. Liðið er á toppi þýsku deildarinnar og er með annan fótinn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Frétt Bild í gærkvöldi segir hins vegar frá því að það sé ekki allt eins og það eigi að vera á milli þjálfarans Hansi Flick og yfirmanns knattspyrnumála Hasan Salihamidzic.

Þeir eru sagðir ósammála um framtíðarsýn félagsins og þá sér í lagi hvað varðar leikmannakaup. Salihamidzic er svo einnig talinn renna hýru auga til þjálfara Leizig, Julian Nagelsmann.

Sögusagnir ganga um Þýskaland að Salihamidzic hafi nú þegar rætt við Nagelsmann um að taka við þýsku meisturunum og það gæti endað með því að Flick hætti - eða verði sagt upp.

Flick er með samning við Bayern til sumarsins 2023 en hann hefur einnig verið orðaður við þýska landsliðsins. Joachim Löw stoppar sem þjálfari landsliðsins í sumar, eftir EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×