Innlent

„Hljómar undarlega“ að taka aðeins Schengen-vottorð gild

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir telur það skjóta skökku við að taka aðeins gild bólusetningar- og mótefnavottorð frá Schengen-ríkjum á landamærum. Hann bendir á að stjórnvöld ráði þessum málum.

Fjallað var um það í Morgunblaðinu í morgun að hvorki væri tekið við bólu­setn­ing­ar- né mót­efn­is­vott­orðum á landa­mær­um Íslands ef komuf­arþegi kem­ur frá ríki utan Schengen-sam­starfs­ins. Þetta er gert að til­mæl­um ráðherr­aráðs Evr­ópu­sam­bands­ins.

„Þetta hef­ur þær af­leiðing­ar að hinum sís­tækk­andi hópi bólu­settra ferðamanna frá Banda­ríkj­un­um, Bretlandi og Kína er meinaður aðgang­ur að land­inu, en þess­ar þjóðir hafa myndað stærstu ferðamanna­hópa á Íslandi und­an­far­in ár,“ segir í frétt Morgunblaðsins. Þar er jafnframt haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar að hann voni að banninu verði aflétt fyrir ágústmánuð.

„Mér finnst hins vegar að það hljómi undarlega að vera bara að taka vottorð gild um sömu bólusetningu og sama sjúkdóminn innan Schengen. Allavega út frá mínum sjónarhóli og faraldsfræðilegu og sjúkdómalegu sjónarmiði þá sé ég ekki mun á því í sjálfu sér,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, inntur eftir viðbrögðum við þessu í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„En reglugerðin kveður á um þetta núna og það getur vel verið að ég komi með tillögu um að við tökum gild vottorð utan Schengen en það eru náttúrulega stjórnvöld sem ráða þessu endanlega.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.Vísir/Vilhelm

Stefnt er að því að 1. maí næstkomandi verði tekin varfærin skref til afléttingar sóttvarnaraðgerða á landamærum, sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Frá og með þeim degi verður byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×