Innlent

Tiltölulega róleg nótt á Reykjanesskaga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá svæðinu sunnan við Fagradalsfjall þar sem mikil skjálftavirkni hefur verið undanfarið.
Frá svæðinu sunnan við Fagradalsfjall þar sem mikil skjálftavirkni hefur verið undanfarið. Vísir/Vilhelm

Nóttin var tiltölulega róleg á Reykjanesskaga miðað við hvernig verið hefur undanfarið sé litið til fjölda skjálfta frá miðnætti og þess hversu margir þeirra voru stærri en þrír.

Aðeins einn skjálfti af þeim rúmlega 600 skjálftum sem mælst hafa frá miðnætti var stærri en þrír. Hann varð klukkan 1:20 í Nátthaga, 3,8 kílómetra suður af Fagradalsfjalli á fimm kílómetra dýpi.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, svarar játandi þegar blaðamaður spyr hvort nóttin hafi verið „extra“ róleg.

„Það voru fjórir skjáltar í gærkvöldi frá 3,3 til 3,6 að stærð en það er bara búið að vera fremur rólegt núna í nótt. Vonandi gátu allir sofið vel. En það er ennþá stöðug smáskjálftavirkni á svæðinu og við teljum að enn geti komið gikkskjálftar og að atburðurinn sé enn í gangi,“ segir Einar.

Ekki sé byrjað að gjósa á svæðinu og þá mælist ekki órói. Einar segir að vísindaráð almannavarna muni funda klukkan ellefu í dag. Þá verða komnar niðurstöður úr nýjum gervihnattamyndum sem komu í gærkvöldi.

Í gær mældust rétt rúmlega 3000 jarðskjálftar á Reykjanesskaga með sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar. Stærsti skjálftinn mældist klukkan 14:15 og var 5,4 að stærð með upptök um 2,5 km vestur af Nátthaga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×