Aðeins einn skjálfti af þeim rúmlega 600 skjálftum sem mælst hafa frá miðnætti var stærri en þrír. Hann varð klukkan 1:20 í Nátthaga, 3,8 kílómetra suður af Fagradalsfjalli á fimm kílómetra dýpi.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, svarar játandi þegar blaðamaður spyr hvort nóttin hafi verið „extra“ róleg.
„Það voru fjórir skjáltar í gærkvöldi frá 3,3 til 3,6 að stærð en það er bara búið að vera fremur rólegt núna í nótt. Vonandi gátu allir sofið vel. En það er ennþá stöðug smáskjálftavirkni á svæðinu og við teljum að enn geti komið gikkskjálftar og að atburðurinn sé enn í gangi,“ segir Einar.
Ekki sé byrjað að gjósa á svæðinu og þá mælist ekki órói. Einar segir að vísindaráð almannavarna muni funda klukkan ellefu í dag. Þá verða komnar niðurstöður úr nýjum gervihnattamyndum sem komu í gærkvöldi.
Í gær mældust rétt rúmlega 3000 jarðskjálftar á Reykjanesskaga með sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar. Stærsti skjálftinn mældist klukkan 14:15 og var 5,4 að stærð með upptök um 2,5 km vestur af Nátthaga.