Fótbolti

Hjörtur hafði betur gegn Aroni og Karó­­lína lék í enn einum sigri Bayern

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn fyrir Bröndby sem vann þægilegan 3-0 sigur.
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn fyrir Bröndby sem vann þægilegan 3-0 sigur. Vísir/Getty

Bröndby vann öruggan 3-0 sigur á OB í dönsku úrvalsdeildinni þar sem tveir íslenskir leikmenn voru í eldlínunni. Þá spilaði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir síðustu mínúturnar í öruggum 3-0 sigri Bayern München.

Aron Elís Þrándarsson og Hjörtur Hermannsson voru báðir í byrjunarliðum liða sinna er OB tók á móti Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Gestirnir frá Bröndby unnu einkar sannfærandi sigur en leiknum lauk með 3-0 sigri gestanna. Öll komu þau í fyrri hálfleik.

Mikael Uhre gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu á aðeins nítján mínútum. Hann kom Bröndby yfir á 20. mínútu leiksins, tvöfaldaði forystuna fimmtán mínútum síðar og tryggði svo sigurinn með þriðja markinu á 39. mínútu. Jesper Lindstrom lagði öll þrjú mörkin upp.

Bæði Aron Elís og Hjörtur léku allan leikinn. Bröndby er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 44 stig, á meðan OB er í 9. sæti með 25 stig.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af bekknum undir lok leiks í þægilegum sigri Bayern München á Essen í dag. Lokatölur þar einnig 3-0 en Karólína Lea kom inn af bekknum á 84. mínútu leiksins.

Landsliðskonan er hægt og rólega að vinna sig inn í lið Bayern sem trónir sem fyrr á toppi þýsku deildarinnar með fullt hús stiga og virðist aðeins tímaspursmál hvenær liðið tryggir sér titilinn.

Bayern er með 48 stig að loknum 16 umferðum en þar á eftir kemur Wolfsburg með 43 stig.

Karólína Lea og stöllur hennar í Bayern stefna hraðbyr á þýska meistaratitilinn.Bayern



Fleiri fréttir

Sjá meira


×