Innlent

Lands­réttur segir lög­reglu heimilt að kalla verjanda í skýrslu­töku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Steinbergur segir að úrskurður Landsréttar, um heimild lögreglu til að taka skýrslu af honum, valdi því að hann geti ekki verið verjandi í málinu.
Steinbergur segir að úrskurður Landsréttar, um heimild lögreglu til að taka skýrslu af honum, valdi því að hann geti ekki verið verjandi í málinu. Vísir/Samsett

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um heimild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að taka skýrslu af verjanda Íslendings sem sætir nú farbanni vegna rannsóknar á hinu svokallaða Rauðagerðismáli.

Fréttablaðið greindi fyrst frá en í samtali við Vísi segir Steinbergur Finnbogason, umræddur verjandi, að áhugavert verði að sjá hverjar spurningar lögreglu verði, ef einhverjar verði. Hann kveðst ekki mega, lögum samkvæmt, bera vitni í máli umbjóðanda síns.

„Ég hef ekki séð neinar spurningar, en ef ég verð boðaður í skýrslutöku þá er ferlið með þeim hætti að ég svara því að ég hafi ekki heimild til að svara,“ segir Steinbergur. Hann segir að málið gæti því farið í þann farveg að dómstólar þurfi að úrskurða um hvort Steinbergi sé heimilt að svara spurningum lögreglu. Hann gerir ráð fyrir að það færi fyrir Landsrétt, eftir að héraðsdómur hefði úrskurðað um það.

Steinbergur segir að úrskurður Landsréttar, um heimild lögreglu til að taka skýrslu af honum, valdi því að hann geti ekki verið verjandi í málinu.

„Ekki að svo stöddu. Úrskurðurinn gekk út á það að skipun mín sem verjandi yrði afturkölluð.“

Þegar úrskurður héraðsdóms í málinu var ljós sagðist Steinbergur í samtali við Vísi ekki búa yfir neinum upplýsingum sem máli geti skipt fyrir rannsókn málsins, sem undanskildar væru trúnaðarskyldu hans við skjólstæðing sinn.

Hann gæti þó gefið sér að lögregla leitaðist eftir upplýsingum um samskipti frá öðrum sem leituðu til hans um málsvörn, sem ekki var hægt að verða við þar sem hann var þegar verjandi annars manns í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×