Erlent

Biden til þjóðarinnar: „Ég þarfnast ykkar“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden skaut á Trump þegar hann sagði að veirunni hefði fyrst verið mætt með þögn og afneitun, sem hefði kostað marga lífið.
Biden skaut á Trump þegar hann sagði að veirunni hefði fyrst verið mætt með þögn og afneitun, sem hefði kostað marga lífið. epa/Chris Kleponis

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur vakið mikla athygli fyrir ávarp til bandarísku þjóðarinnar í gær, þar sem umfjöllunarefnið var kórónuveirufaraldurinn. Keppast menn nú við að bera saman nýjan tón Biden við það stef sem hefur glumið síðustu ár.

„Ég mun ekki hætta fyrr en við höfum sigrast á þessari veiru. En ég þarfnast ykkar, bandarísku þjóðarinnar. Ég þarfnast ykkar. Ég þarfnast þess að allir Bandaríkjamenn leggi lóð sitt á vogaskálarnar,“ sagði forsetinn um baráttuna við SARS-CoV-2.

Spekúlantar benda á að Biden hefði getað notað tækifærið til að hreykja sér af árangrinum hingað til; 1,9 milljarð dala björgunarpakkanum sem hann kom í gegn og auknum hraða í bólusetningum.

Þess í stað biðlaði hann til þjóðarinnar, og gerði það sem forveri hans gerði aldrei; viðurkenndi að hann væri ófær um að bjarga málunum upp á eigin spýtur. „Aðeins ég get reddað þessu,“ sagði Donald Trump svo eftirminnilega á landsþingi Repúblikanaflokksins árið 2016, þegar umræðuefnið var stjórnkerfið bandaríska.

Biden sagði 527.726 Bandaríkjamenn hafa látist af völdum Covid-19, fleiri en létust í báðum heimstyrjöldunum, Víetnam-stríðinu og 11. september 2001 samanlagt.

Forsetinn varaði við bakslagi en veitti jafnframt von um bjartari tíma, þegar hann sagðist stefna að því að 4. júlí, á fullveldisdeginum sjálfum, gætu fjölskyldur komið saman í bakgörðum og gert sér glaðan dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×