Erlent

Bæta við ákæru á hendur lögreglumanninum vegna dauða Floyd

Kjartan Kjartansson skrifar
Derek Chauvin (t.h.) með lögmanni sínum í réttarsal í Hennepin-sýslu í gær.
Derek Chauvin (t.h.) með lögmanni sínum í réttarsal í Hennepin-sýslu í gær.

Dómari í Minneapolis samþykkti að bæta við ákæru á hendur Derek Chauvin, lögreglumanni, sem er sakaður um að hafa orðið George Floyd að bana í fyrra. Chauvin er nú einnig ákærður fyrir manndráp án ásetnings og telja sérfræðingar það auka líkurnar á að hann verði sakfelldur.

Ákvörðun dómarans kom í kjölfar niðurstöður áfrýjunardómstóls en hann hafði áður fellt niður liðinn um manndráp án ásetnings þar sem hann taldi hann ekki eiga við í málinu. Réttarhöldin, sem hófust með vali á kviðdómendum í vikunni, geta nú haldið áfram en hætta var á að þau frestuðust um fleiri vikur eða mánuði vegna ágreinings um ákæruefnið, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fyrir átti Chauvin yfir höfði sér ákæru fyrir manndráp af gáleysi og manndráp. Lögspekingar telja það styrkja stöðu saksóknara að bæta við ákærunni um manndráp án ásetnings þar sem kviðdómendur hafa nú fleiri möguleika á að sakfella lögreglumanninn fyrrverandi.

Chauvin, sem er hvítur, er sakaður um að hafa valdið dauða Floyd, óvopnaðs blökkumanns, þegar hann og þrír aðrir lögregluþjónar höfðu afskipti af honum í maí í fyrra. Hélt Chauvin hné sínu á hálsi Floyd í um níu mínútur þrátt fyrir að Floyd reyndi að segja honum að hann næði ekki andanum, andmæli vegfarenda og jafnvel eftir að hinir lögreglumennirnir bentu Chauvin á að þeir fyndu ekki lengur púls Floyd.

Dauði Floyd varð kveikjan að mikilli mótmælaöldu gegn lögregluofbeldi og kerfislægri kynþáttahyggju í Bandaríkjunum og víðar um heim.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.