Íslenski boltinn

Helmingur liða bíður enn keppnisleyfis

Sindri Sverrisson skrifar
Það styttist í fótboltasumarið. KA er eina félagið í efstu deild karla sem bíða þarf þátttökuleyfis en stuðningsmenn liðsins ættu ekki að örvænta miðað við reynslu síðustu ára.
Það styttist í fótboltasumarið. KA er eina félagið í efstu deild karla sem bíða þarf þátttökuleyfis en stuðningsmenn liðsins ættu ekki að örvænta miðað við reynslu síðustu ára. vísir/vilhelm

Í ár þurfa félög í efstu deild kvenna í fótbolta í fyrsta sinn að uppfylla kröfur í sérstöku leyfiskerfi KSÍ til að fá keppnisleyfi á komandi leiktíð, líkt og félög í efstu tveimur deildum karla. Leyfisráð samþykkti átján af 34 umsóknum um þátttökuleyfi í gær.

Leyfisráð KSÍ kom saman í gær og fór yfir umsóknir félaganna. Sextán umsóknir uppfylltu ekki öll skilyrði og félögin sem sendu þær umsóknir fá viku til að bæta úr því sem upp á vantaði, fyrir seinni fund leyfisráðs, svo að þau fái að spila á Íslandsmótinu í sumar.

Til samanburðar var það þannig að á fyrri fundi leyfisráðs í fyrra voru tíu umsóknir um þátttökuleyfi samykktar en fimmtán hafnað. Þær voru svo samþykktar á seinni fundi ráðsins.

Í leyfisreglugerð KSÍ eru meðal annars kröfur sem lúta að aðbúnaði fyrir áhorfendur, yngri flokka starfi, fjárhagsstöðu og fleiru.

KA eina liðið í efstu deild karla sem bíður

Í efstu deild karla í ár var það aðeins KA sem ekki fékk leyfisumsókn sína samþykkta í gær. Hin ellefu félögin fengu grænt ljós í fyrstu tilraun.

Í efstu deild kvenna fengu fimm af tíu félögum þáttökuleyfi, eða Breiðablik, Fylkir, Stjarnan, Valur og nýliðar Keflavíkur.

Það þýðir að ÍBV, Selfoss, Þróttur R., Þór/KA og nýliðar Tindastóls þurfa að laga sínar umsóknir til að fá leyfi.

Aðeins tvö félög í næstefstu deild karla, Afturelding og Fram, fengu þáttökuleyfi samþykkt í gær. Hin tíu liðin eru Fjölnir, Grindavík, Grótta, ÍBV, Kórdrengir, Selfoss, Vestri, Víkingur Ó., Þróttur R. og Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×