Innlent

Íslenska ríkið greiðir Aldísi bætur vegna skjals sem lögregla útbjó fyrir Jón Baldvin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla braut gegn lögum þegar hún miðlaði upplýsingum um Aldísi til föður hennar, Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Lögregla braut gegn lögum þegar hún miðlaði upplýsingum um Aldísi til föður hennar, Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Íslenska ríkið hefur samþykkt að greiða Aldísi Schram 1,2 milljón króna í miskabætur og 400 þúsund króna í málskostnað vegna ákvörðunar Persónuverndar, sem komst að þeirri niðurstöðu að embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði brotið gegn lögum með því að miðla upplýsingum um Aldísi til föður hennar.

Í samkomulagi milli Aldísar og ríkisins segir að það feli í sér fullnaðargreiðslu vegna allra krafna sem Aldís kann að hafa öðlast gagnvart íslenska ríkinu í tengslum við málið. Þá skuldbindi hún sig til að hafa ekki frekari kröfur uppi gagnvart ríkinu vegna málsins.

Samkomulagið er dagsett í dag.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu 27. ágúst síðastliðnum að vinnsla Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum um Aldísi í tengslum við útgáfu og miðlun skjals sem geymdi upplýsingar um afskipti lögreglu af Aldísi samrýmdist ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Umrætt skjal var gefið út af Herði Jóhannesssyni, þáverandi aðstoðarlögreglustjóra, og bar yfirskriftina „Til þess er það kann að varða“. Þar kom fram að lögregla hefði haft afskipti af Aldísi eða sinnt verkefnum vegna hennar og að foreldrar hennar hefðu aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi vegna hennar.

Í niðurstöðu Persónuverndar kom meðal annars fram að lögregla hefði ekki getað upplýst um forsendur þess að skjalið var unnið. Það hefði ekki verið varðveitt í skjalavörslukerfi embættisins. Þá þyrfti að leggja til grundvallar að einstaklingar mættu almennt treysta því að upplýsingum sem skráðar væru hjá lögreglu væri ekki miðlað til óviðkomandi aðila. 

Þar sem Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði miðlað umræddum upplýsingum án heimildar hefði embættið ekki unnið upplýsingarnar með sanngjörnum, málefnalegum né lögmætum hætti gagnvart Aldísi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.