Innlent

Margir leita til heilsugæslunnar vegna riðutilfinningar

Birgir Olgeirsson skrifar

Margir hafa leitað til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna riðutilfinningar sem fylgir skjálftahrinunni á Reykjanesskaga. Forstjóri heilsugæslunnar segir þetta algengt í náttúruhamförum þar sem vöðvaspenna og svefntruflanir geti valdið ójafnvægi í líkamanum.

Læknar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa átt mörg samtöl við sjúklinga sem finna fyrir kvíða og óþægindatilfnningu vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaganum.

„Við sjáum það að sjúklingarnir okkar eru að hringja og hafa áhyggjur af þessu. Þeir eru kvíðnir. Sumir fá óstöðugleika tilfinningu sem fylgir kvíða og vöðvaspenna. Síðan eru eitthvað af þessum hreyfingum. Síðan er fólk að kvarta undan svefntruflunum,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hvernig lýsir þessi óstöðugleikatilfinning sér?

„Það er svona einskona riðutilfinning eins og fólki finnst það óstöðugt. Það getur fylgt spennuástandi eins og ógleði og vanlíðan. Það getur verið eðlilegt að fólk finni svona tilfinningu við þessar aðstæður því þær vekja eðlilega áhyggjur hjá fólki,“ segir Óskar.

Hann segir bestu leiðina til að takast á við kvíðann að kynna sér upplýsingar frá yfirvöldum hvernig eigi að bregðast við náttúruhamförum. Slíkum upplýsingum fylgi öryggistilfinning sem slái á kvíðann. Til að vinna á riðunni þurfi að komast í slökun.

„Þetta er spennuástand sem hefur áhrif á blóðflæði og vöðvaspennu. En það er auðvitað slökun og vinna með það með þeim hætti sem er mikilvægast.“

Óskar vann lengi vel á Suðurlandi og hefur séð þetta í sjúklingum í tengslum við aðrar náttúruhamfarir.

„Það eru eðlilega miklar áhyggjur, eins og tengslum við Eyjafjallajökulsgosið og Suðurlandsskjálftana. Þetta getur valdið mikilli vanlíðan og mun meira heldur líkamlegt tjón því það er lítið um það í rauninni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×