Erlent

Ó­gildir dóm yfir Lula sem gerir honum kleift að bjóða sig fram á ný

Atli Ísleifsson skrifar
Lula var forseti Brasilíu á árunum 2003 til 2010.
Lula var forseti Brasilíu á árunum 2003 til 2010. Getty/Pedro Vilela

Dómari í Brasilíu hefur ógilt dóm yfir Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseta landsins, sem hann hlaut vegna spillingar. Niðurstaðan gerir það að verkum að Lula gæti boðið sig fram að nýju í forsetakosningunum 2022.

Vinstrimanninum Lula, sem nýtur enn mikilla vinsælda meðal stórs hóps í landinu, var sleppt úr fangelsi árið 2019 eftir að hafa þurft að dúsa þar í hálft annað ár. Hann hlaut dóm í kjölfar rannsóknar lögreglu sem gekk undir heitinu „Aðgerð bílaþvottur“ sem hófst árið 2014 og sneri að mútugreiðslum manna úr viðskiptalífinu til stjórnmálamanna. Lula var forseti Brasilíu á árunum 2003 til 2010.

BBC segir frá því að hæstaréttardómarinn Edson Fachin hafi í gær ógilt sakfellinguna yfir hinum 75 ára Lula, á þeim forsendum að yfirvöld í borginni Curitiba í suðurhluta landsins hafi ekki haft rétt til að sækja málin eins og gert var. Í raun hefði átt sækja málin til alríkisdómstóls í höfuðborginni Brasilíu.

Úrskurður Fachin á enn eftir að koma til kasta fullskipaðs Hæstaréttar, en hann veitir Lula öll pólitísk réttindi sín á ný, að því gefni að hinn fullskipaði Hæstaréttur felli ekki úrskurð dómarans úr gildi.

Standi niðurstaða dómarans, gæti Lula boðið sig fram gegn sitjandi forseta Jair Bolsonaro, standi vilji Lula til þess á annað borð. Líklegt þykir að Bolsonaro muni sækjast eftir endurkjöri, en skoðanakannanir benda til að Lula gæti velt honum úr sessi.

Árið 2018 var Lula dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir mútuþægni, en sá dómur var síðar mildaður í átta ár og tíu mánuði. Árið 2019 hlaut hann svo annan tólf ára fangelsisdóm, einnig fyrir mútuþægni. Honum var hins vegar sleppt sama ár eftir að Hæstiréttur Brasilíu úrskurðaði að ákærðu skyldu ekki hefja afplánun fyrr en áfrýjunarferli í málum væri lokið.


Tengdar fréttir

Lula laus úr fangelsi

Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið látinn laus úr fangelsi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×