Fótbolti

Guardiola með lúmskt skot á Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola skaut léttum skotum á titilvörn Liverpool.
Pep Guardiola skaut léttum skotum á titilvörn Liverpool. Manchester City/Getty

Manchester City er eina liðið sem hefur endað í efstu fjórum sætum ensku úrvalsdeildarinnar árið eftir að hafa unnið hana. Hann er stoltur af því að hans menn hafa aldrei endað neðar en í öðru sæti eftir að hafa unnið titilinn, og segir þann stöðugleika færa liðinu virðingu.

Titilvörn Liverpool hefur ekki gengið eins vel og stuðningsmenn og leikmenn liðsins hefðu vonað. Liðið er nú 22 stigum á eftir toppliði Manchester City.

Pep Guardiola, stjóri City, sat fyrir svörum á dögunum þar sem hann talaði um hversu mikilvægur stöðugleiki væri.

„Aðdáendur okkar krefjast þess að við berjumst um titla,“ sagði Guardiola. „Veistu hvað er það besta sem þessi klúbbur hefur gert seinasta áratuginn? Í hvert skipti sem við unnum titilinn vorum við mættir næsta tímabil að berjast um hann aftur.“

„Þú horfir á aðra meistara og hvernig þeir berjast um að ná einu af efstu fjórum sætunum,“ bætti Guardiola við.

Manchester City hefur nú unnið 21 leik í röð í öllum keppnum og eru 15 stigum fyrir ofan granna þeirra í Manchester United. Manchester liðin tvö eigast við í stórleik helgarinnar í ensku úrvaldsdeildinni í dag klukkan 16.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×