Fótbolti

Klopp, Solskjaer og Guardiola hafa áhyggjur af sóttkví leikmanna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp og Pep Guardiola faðmast eftir leik Liverpool og Manchester City á dögunum
Jürgen Klopp og Pep Guardiola faðmast eftir leik Liverpool og Manchester City á dögunum Peter Byrne/Getty

Nokkrir þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni hafa áhyggjur af því að leikmenn þeirra þurfi að fara í 10 daga sóttkví eftir komandi landsleikjahlé. Meðal þeirra eru Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, Pep Guardiola, þjálfari Manchester City og Ole Gunnar Solskjaer, þjálfari Manchester United.

Reglur í Englandi kveða á um að allir þeir sem koma inn í landið frá löndum af svokölluðum rauðum lista vgna kórónuveirunnar, þurfi að fara í 10 daga sóttkví. Meðal landa á þessum rauða lista eru Portúgal, öll Suður-Ameríka og nokkur Afríkulönd.

Nú þegar að stutt er í næsta landsleikjahlé hafa nokkrir þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni áhyggjur af því að leikmenn þeirra þurfi að fara í sóttkví við komuna til baka og geti því misst af mikilvægum leikjum í deildinni.

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, gekk svo langt að hann sagðist ætla að banna leikmönnum sínum að fara í landsliðsverkefni ef það þýddi að þeir þyrftu að fara í 10 daga sóttkví.

Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, tekur í sama streng og segir að það sé ekki hægt að geðjast öllum. „Leikmennirnir fá borgað frá félögunum og það þýðir að við þurfum að vera efstir í forgangsröðinni,“ sagði Klopp. „Ég held að allir geti verið sammála um það að við getum ekki leyft leikömmun að fara og spila fyrir sína þjóð, koma svo til baka og þurfa að vera í 10 daga sóttkví á hóteli. Það er ekki mögulegt.“

Ole Gunnar Solskjaer, þjálfari Manchester United, var ekki jafn harðorður, en var þó sammála kollegum sínum. Solskjaer sagði að leikmönnum sínum yrði ráðlagt að ferðast ekki og sagði að það væri óskiljanlegt ef leikmenn fara í landsliðsverkefni og þurfi að vera frá liðinu í 10 daga við heimkomu.

Fleiri þjálfarar hafa tekið í sama streng, þar á meðal Steve Bruce, þjálfari Newcastle, og Carlo Ancelotti, þjálfari Everton. 

Ljóst er að þetta gæti haft áhrif á fjölda liða, en alls eru sjö lið sem eru með þrjá eða fleiri leikmenn sem eru frá löndum sem eru af þessum rauða lista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×