Enski boltinn

Gylfi er réttnefndur SIGUR-ðsson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var bara búinn að vera inn á vellinum í 43 sekúndur þegar hann lagði upp sigurmark Everton í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson var bara búinn að vera inn á vellinum í 43 sekúndur þegar hann lagði upp sigurmark Everton í gær. Getty/Visionhaus

Everton liðið er á sigurgöngu í ensku úrvalsdeildinni og íslenski landsliðsmaðurinn á mikinn þátt í því.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið með beinum hætti að sex sigurmörkum Everton liðsins í síðustu átján leikjum í deild eða bikar. Hann lagði upp sigurmarkið á móti West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sigurmark fyrir Richarlison í öðrum leiknum í röð í gær og nú aðeins 43 sekúndum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Gylfi hefur alls komið að sex sigurmörkum Everton liðsins á síðustu þremur mánuðum, skoraði tvö þeirra sjálfur en einnig átt fjórar stoðsendingar á menn sem hafa skorað þá sigurmörk.

Gylfi hefur ennfremur átt þátt í marki í sjö af síðustu níu sigurleikjum Everton í ensku úrvalsdeildinni eða öllum sigurleikjum frá því í desember nema 2-1 sigrinum á móti Wolves 12. janúar síðastliðinn og 2-0 sigrinum á Leicester 16. desember.

Everton hefur unnið þrjá leiki í röð og Gylfi hefur átt þátt í marki í þeim öllum þrátt fyrir að koma inn á sem varamaður í tveimur þeirra.

Gylfi hefur alls komið með beinum hætti að fimmtán mörkum á tímabilinu, skoraði sex sjálfur en einnig gefið níu stoðsendingar. Hann hefur komið að átta mörkum í 25 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en sjö af þessum mörkum hafa litið dagsins ljós í síðustu fimmtán leikjum.

Sigurmörkin sem Gylfi hefur átt þátt í síðan í desember:

  • 12. desember 2020
  • Sigurmark á móti Chelsea (1-0 sigur)
  • 19. desember 2010
  • Stoðsending á Yerry Mina í sigurmarki á móti Arsenal (2-1 sigur)
  • 26. desember 2020
  • Sigurmark á móti Sheffield United (1-0 sigur)
  • 10. febrúar 2021
  • Stoðsending á Bernard í sigurmarki á móti Tottwnham í bikar (5-4 sigur)
  • 1. mars 2021
  • Stoðsending á Richarlison í sigurmarki á móti Southampton (1-0 sigur)
  • 4. mars 2021
  • Stoðsending á Richarlison í sigurmarki á móti West Brom (1-0 sigur)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×