E­ver­ton í Meistara­deildar­sæti eftir að Gylfi Þór lagði upp sigur­markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór, Richarlison og Andre Gomes fagna sigurmarki Everton í kvöld.
Gylfi Þór, Richarlison og Andre Gomes fagna sigurmarki Everton í kvöld. Alex Pantling/Getty Images

Leikur WBA og Everton var ekki mikið fyrir augað enda leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar orðnir örþreyttir sökum mikils álags undanfarið. Staðan var markalaus í hálfleik og raunar var hún þannig allt þangað til Gylfi Þór kom inn á fyrir Abdoulaye Doucoure á 64. mínútu leiksins.

Aðeins mínútu síðar átti Gylfi fyrirgjöf sem Brasilíumaðurinn Richarlison skallaði knöttinn í netið. Annar leikurinn í röð sem Richarlison skorar sigurmark Everton, í bæði skiptin eftir sendingu frá Gylfa Þór.

Ekki urðu mörkin fleiri og Everton fór því með sigur af hólmi. Mbaye Diagne hélt hann hefði jafnað metin þegar komið var langt inn í uppbótartíma leiksins. Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu að því virtist en ekki sást vel á endursýningu á hvað var dæmt á.

Everton er komið í 4. sæti deildarinnar – Meistaradeildarsæti – með 46 stig að loknum 26 leikjum. Liverpool eða Chelsea geta bæði farið upp fyrir Everton en þau mætast síðar í kvöld. Lærisveinar Carlo Ancelotti ættu hins vegar leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.