Erlent

Læknir hugðist bera vitni á Zoom í miðri aðgerð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar

Heilbrigðisyfirvöld í Kaliforníu rannsaka nú mál skurðlæknis sem hugðist bera vitni við réttarhöld gegnum Zoom, á meðan hann gerði aðgerð á sjúkling. Dómarinn í málinu sagði fyrirætlun læknisins ekki viðeigandi og frestaði fyrirtökunni. 

Atvikið átti sér stað í Sacramento en dómsmálið snérist um umferðarlagabrot. Lög gera ráð fyrir að fjallað sé um umferðarmál fyrir opnum dyrum og því var streymt frá réttarhöldunum í beinni útsendingu á YouTube.

Þegar læknirinn birtist á skjánum, sást að hann var klæddur skurðgallanum sínum og virtist vera að framkvæma aðgerð á skurðstofu.

„Halló... Herra Green? Hi. Ertu tilbúin fyrir réttarhöldin? Þú virðist vera á skurðstofu...“ spurði dómvörður. „Ég er það. Já, ég er á skurðstofunni núna. Já, ég er tilbúin fyrir réttarhöldin. Haldið bara áfram,“ svaraði læknirinn.

Hann virtist snúa sér aftur að aðgerðinni á meðan beðið var eftir dómaranum. Þegar síðarnefndi mætti, spurði hann lækninn aftur hvort hann væri raunverulega að framkvæma aðgerð og sagðist hafa áhyggjur af velferð sjúklingsins.

Læknirinn svaraði því til að honum væri ekkert að vandbúnaði og að annar læknir væri með honum á skurðstofunni sem gæti tekið við á meðan hann bæri vitni.

„Ég held ekki,“ sagði þá dómarinn. „Mér finnst það ekki viðeigandi. Ég ætla að finna aðra dagsetningu, þegar þú ert ekki að framkvæma eða taka þátt og sinna þörfum sjúklings.“

Læknirinn vildi ekki tjá sig við NBC News þegar eftir því var leitað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×