Innlent

Símon Sig­valda­son skipaður dómari við Lands­rétt

Eiður Þór Árnason skrifar
Símon hefur verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2004 og dómstjóri frá árinu 2017. 
Símon hefur verið dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur frá árinu 2004 og dómstjóri frá árinu 2017.  Samsett

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands um skipun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, í embætti dómara við Landsrétt frá 1. mars næstkomandi.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins en fram kom á mánudag að Símon hafi verið metinn hæfastur að mati dómnefndar um hæfni umsækjenda. Embætti dómara við Landsrétt var auglýst laust til umsóknar þann 20. nóvember síðastliðinn og bárust alls þrjár umsóknir.

Auk Símonar sóttu Jón Finnbjörnsson landsréttadómari og Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari um stöðuna. Embættið var auglýst eftir að Ragnheiður Bragadóttir var endurskipuð í Landsrétt og fyrri staða hennar losnaði.

Var með 99,4 prósent sakfellingarhlutfall

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að Símon hafi lokið embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1989 og jafnframt lagt stund á nám við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla og Penn State háskóla í Bandaríkjunum. 

Fram til ársins 1998, er Símon var skipaður skrifstofustjóri Hæstaréttar Íslands, starfaði hann meðal annars sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands og sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu. Símon sinnti starfi skrifstofustjóra Hæstaréttar allt til ársins 2004 er hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur en því embætti hefur hann gegnt síðan, þar af sem dómstjóri frá árinu 2017. 

Að auki hefur Símon sinnt fræðastörfum og kennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Af öðrum störfum Símonar má nefna formennsku í dómstólaráði 2006-2017, setu í refsiréttarnefnd frá árinu 2007 auk þess sem hann hefur margoft tekið sæti sem varadómari í Hæstarétti Íslands.

Fjallað var um Símon í fréttum Stöðvar 2 árið 2012 þegar athugun fréttastofu leiddi í ljós að hann hefði einungis sýknað í tveimur málum af síðustu 304 sakamálum sem hann hafði dæmt í við Hérðaðsdóm Reykjavíkur. Reiknaðist sakfellingarhlutfall hans þar með 99,4 prósent.


Tengdar fréttir

Dómarakapall í Landsrétti

Þrír af fjórum dómurum við Landsrétt sem þáverandi dómsmálaráðherra færði upp á lista hæfnisnefndar hafa fengið nýja skipun við réttinn. Dómararnir sögðu ekki af sér samkvæmt fyrri skipunum fyrr en eftir að þeir voru skipaðir á nýjan leik. Nú er staða við réttinn laus til umsóknar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.