Fótbolti

Henry hættir hjá Mont­real vegna fjöl­skyldunnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Henry er hættur sem þjálfari CF Montréal.
Henry er hættur sem þjálfari CF Montréal. EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER

Franska goðsögnin Thierry Henry hefur sagt starfi sínu hjá CF Montréal í MLS-deildinni í knattspyrnu lausu. Ástæðan er einföld, kórónufaraldurinn og starfið hefur haft of mikil áhrif á fjölskyldu kappans.

„Þetta er virkilega erfið ákvörðun en undanfarið ár hefur verið erfitt fyrir mig persónulega. Vegna heimsfaraldursins hef ég ekki komist heim til að hitta börnin mín,“ sagði hinn 43 ára gamli Henry um ákvörðunina.

„Ég þurfti að taka þessa ákvörðun þar sem það er lítið að fara breytast á næstunni. Að vera svona lengi í burtu frá börnunum mínum hefur haft slæmt áhrif á mig og þau. Ég er mjög leiður en ég verð því miður að hætta þjálfun liðsins,“ sagði Frakkinn einnig en liðinu hefur gengið ágætlega undir hans stjórn.

Komst liðið til að mynda í úrslitakeppni MLS-deildarinnar á fyrsta tímabili Henry. Var það þriðja starfið hans á þjálfaraferlinum. Hann byrjaði sem aðstoðarmaður Roberto Martinez hjá belgíska landsliðinu. Þaðan lá leiðin til Monaco í Frakklandi og svo Montréal. 

Henry mun nú flytja til Lundúna þar sem hann gerði garðinn frægan með Arsenal á sínum tíma. Nýverið var sóknarmaðurinn fyrrverandi orðaður við stjórastöðuna hjá B-deildarliði Bournemouth. Talið er að félagið gæti leitað aftur til hans í sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.