Fótbolti

Byrjun Mesut Özil í Tyrklandi átti að vera draumur en er líkari martröð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil í leik með Fenerbahce liðinu en það hefur gengið illa hjá honum í byrjun,
Mesut Özil í leik með Fenerbahce liðinu en það hefur gengið illa hjá honum í byrjun, EPA-EFE/Kenan Asyali

Það er óhætt að segja að Mesut Özil sé ekki að byrja vel með Fenerbahce í Tyrklandi. Hann skilar litlu inn á vellinum og er meira að segja gagnrýndur fyrir það sem hann gerir fyrir leikina.

Tyrkneskir knattspyrnuáhugamenn eru ekki þeir þolinmóðustu. Þeir eru þekktir fyrir að elska knattspyrnumenn einn daginn og hreinlega hata þá þann næsta.

Þegar Fenerbahce samdi við Mesut Özil á dögunum þá var tekið á móti honum og eins og að sjálfur Múhameð væri hreinlega að mæta á svæðið.

Mesut Özil hafði hins vegar ekki spilað með Arsenal í mjög langan tíma og leikæfingin var ekki mikil. Byrjun hans með Fenerbahce hefur ekki verið glæsileg.

Özil spilaði sinn fyrsta leik 2. febrúar þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-1 sigri Fenerbahce. Fenerbahce liðið hefur tapað þremur af fyrstu fimm leikjum Özil og hann hefur hvorki náð að skora eða gefa stoðsendingu.

Liðið tapaði í bikarnum á móti Istanbul Basaksehir og tapaði nú síðast 1-0 á heimavelli á móti liði Goztepe sem er um miðja deild.

Fenerbahce er í þriðja sæti tyrknesku deildarinnar en með jafnmörg stig og Besiktas í öðru sætinu og aðeins þremur stigum á eftir toppliði Galatasaray.

Það er risastór leikur á móti Trabzonspor fram undan og ef hann tapast gæti lífið orðið mun erfiðara fyrir Özil.

Mesut Özil er ættaður frá Tyrklandi en hann er þýskur landsliðsmaður. Hann hefur fengið gangrýni í Þýskalandi fyrir að syngja með tyrkneska þjóðsöngnum fyrir leiki Fenerbahce.

Ástæðan fyrir því að þegar hann lék með þýska landsliðinu þá söng hann aldrei með þýska þjóðsöngnum heldur fór alltaf með bæn í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×