Fótbolti

Lennon telur sig hafa brugðist og er hættur

Sindri Sverrisson skrifar
Neil Lennon hefur átt ergilegt tímabil með Celtic og er nú hættur.
Neil Lennon hefur átt ergilegt tímabil með Celtic og er nú hættur. Getty/Ian MacNicol

Neil Lennon er hættur sem knattspyrnustjóri skoska félagsins Celtic nú þegar allt útlit er fyrir að erkifjendurnir í Rangers, undir stjórn Stevens Gerrard, verði meistarar.

Lennon hafði sagt í janúar að hann myndi ekki yfirgefa sitt kæra félag nema að hann yrði rekinn en er nú farinn.

Celtic er 18 stigum á eftir Rangers eftir 1-0 tap gegn Ross County á sunnudaginn. Tap sem gerir mögulegt að Rangers tryggi sér meistaratitilinn á Celtic Park 21. mars.

Eftir tapið á sunnudag baðst Lennon afsökunar á „að hafa brugðist stuðningsmönnunum aftur“.

Í yfirlýsingu í dag segir Lennon meðal annars: „Við höfum átt erfitt tímabil af mörgum ólíkum ástæðum og, að sjálfsögðu, er mjög ergilegt og svekkjandi að við skulum ekki hafa náð fyrri hæðum. Ég hef lagt eins hart að mér og ég get til að snúa genginu við en því miður höfum við ekki náð okkur á strik eins og við hefðum þurft.“

John Kennedy, sem var aðstoðarmaður Lennons, tekur við Celtic til bráðabirgða.

Lennon tók við Celtic í annað sinn í febrúar árið 2019 þegar Brendan Rodgers hætti til að taka við Leicester. Undir stjórn Lennons varð Celtic skoskur meistari í fyrra. Hann stýrði liðinu áður á árunum 2010-2014 og vann þrjá meistaratitla.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.