Fótbolti

Norðmenn flytja fyrsta heimaleik sinn í undankeppni HM til Malaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland og félagar í norska landsliðinu eru að reyna að komast á sitt fyrsta stórmót síðan á EM 2000.
Erling Braut Haaland og félagar í norska landsliðinu eru að reyna að komast á sitt fyrsta stórmót síðan á EM 2000. Getty/Trond Tandberg

Fyrsti heimaleikur eftirmanns Lars Lagerbäck með norska fótboltalandsliðinu fer ekki fram á norskri grundu.

Kórónuveiran er þegar farin að hafa áhrif á komandi leiki í undankeppni HM 2022 sem fer af stað í lok næsta mánaðar.

Ståle Solbakken tók við landsliðsþjálfarastöðu Norðmanna þegar þeir losuðu sig við Lars Lagerbäck í lok síðasta árs.

Fyrsti heimaleikur norska landsliðsins undir stjórn Solbakken verður þó ekki spilaður á Ullevaal leikvanginum í Osló heldur á Malaga á Spáni. Norska knattspyrnusambandið staðfestir þetta á heimasíðu sinni.

Norðmenn mæta Tyrkjum 27. mars næstkomandi en norska knattspyrnusambandið varð að færa leikinn suður til Spánar vegna strangra sóttvarnarreglna í Noregi.

Þetta verður annar leikur norska landsliðsins í undankeppninni því Norðmenn byrja keppnina á útileik á Gíbraltar. Það verður því ekki langt fyrir þá að fara á milli leikja enda aðeins tæplega tveggja klukkutíma akstur á milli Gíbraltar og borgarinnar Malaga á suður Spáni.

Pål Bjerketvedt, framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins, fagnar þessari niðurstöðu þó að hann segir það vera synd að leikurinn geti ekki farið fram í Noregi. Lausnin á vandamálinu er aftur á móti mjög hagstæð fyrir norska liðið sem fær að halda kyrru fyrir í blíðunni á suður Spáni í viku.

Norska landsliðið mun koma saman í Marbella fyrir Gíbraltarleikinn og getur verið þar áfram á milli leikja enda er bærinn Marbella mitt á milli Gíbraltar og Málaga.

Lokaleikur norska landsliðsins í þessum landsleikjaglugga er síðan á útivelli í Svartfjallalandi 30. mars. Það hefur gengið illa hjá Svartfellingum í baráttunni við kórónuveiruna að undanförnu og því er ekki alveg öruggt að sá leikur fari fram í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×