Erlent

Eins og í slæmri hryllingsmynd

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Shelly Girardin hjúkrunarfræðingur og Shane Wilson læknir sjá um Nevu Azinger á sjúkrahúsi í Memphis.
Shelly Girardin hjúkrunarfræðingur og Shane Wilson læknir sjá um Nevu Azinger á sjúkrahúsi í Memphis. AP/Jeff Roberson

Í heildina hafa nú nærri 29 milljónir smitast af kórónuveirunni í Bandaríkjunum. Þar af hefur hálf milljón látist, fleiri en Bandaríkjamennirnir sem létust í seinni heimsstyrjöld, Kóreustríðinu og Víetnamstríðinu samanlagt. Faraldurinn er hvergi verri.

Hér er þó einungis um að ræða andlát sem staðfest hefur verið að voru af völdum Covid-19. Óttast er að raunveruleg tala sé mun hærri.

Líkhús allt frá New York til Los Angeles hafa verið á yfirsnúningi síðustu mánuði og grafa hefur þurft marga í fjöldagröfum. Jonathan Polk rekur útfararstofu í Long Beach í Kaliforníu og segir ástandið líkt og í slæmri hryllingsmynd.

„Við höfum þurft að neita einhverjum fjölskyldum um þjónustu vegna gríðarlegs álags. Covid er sjúkdómur sem hefur haft afskaplega neikvæð áhrif á margar fjölskyldur. Við viljum hjálpa sem flestum en við verðum að vera raunsæ á eigin afkastagetu,“ sagði Polk við AP.

Létta á takmörkunum

Öllu jákvæðari fréttir bárust frá Bretlandi í dag en heilbrigðisráðherra sagði innlögnum á sjúkrahús vegna veirunnar hafa fækkað umtalsvert vegna bólusetninga. Stefnt er á að opna skóla og slaka á takmörkunum í mars. 

Í Danmörku hefur smitum fækkað mikið frá því í janúar og ræða þingmenn í dag um afléttingar. 

Svipaða sögu er að segja frá Þýskalandi þar sem tíu sambandslönd opnuðu skóla fyrir yngstu börnin í dag.

„Það gleður mig afskaplega mikið að hitta börnin aftur. Þau voru heima afar lengi og ég tel það hafi verið erfitt fyrir foreldrin,“ sagði Anja Nessling, kennari í Frankenthal, við AP.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.