Enski boltinn

Borðaði smjör­deigs­horn í kvöld­matinn á tíma sínum hjá Man. United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Zaha er nú á mála hjá Crystal Palace en hefur lengi verið orðaður burt frá félaginu, til stærra liðs.
Zaha er nú á mála hjá Crystal Palace en hefur lengi verið orðaður burt frá félaginu, til stærra liðs. Mark Fletcher/Getty

Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, segir að honum hafi liðið eins og gleymdum leikmanni hjá Manchester United. Zaha gekk í raðir félagsins árið 2013 en var ekki lengi hjá rauðu djöflunum.

Zaha sagði frá þessu í samtali við Financial Times' Business of Football. Hann segir að lítill spiltími hafi tekið mikið á hann og að hann hafði ekki kjarkinn í að banka upp á hjá þáverandi stjóra United, David Moyes.

„Eina sem ég myndi breyta er hvernig ég kom fram hjá félaginu, við samherja mína og alla. Ég hef sagt frá því áður en ég var skugginn af sjálfum mér þarna,“ sagði Zaha og hélt áfram:

„Ég fór þarna og hélt að allt myndi vera frábært en svo fékkstu stjóra sem var ekki duglegur að nota þig og þú ert langt frá heimili þínu. Þetta var högg og ég hugsaði: Hvað á ég að gera núna?“

„Ég þorði ekki að spyrja stjórann af hverju ég er ekki að spila. Ég hafði ekki sjálfstraustið í það. Ég sætti mig bara við þetta og ég vonaðist til að hann myndi skipta um skoðun.“

„Ég var á allt öðrum stað og ekki að spila fótbolta svo það gerði hlutina erfiðari. Bróðir minn og fjölskylda voru með mér en þau höfðu einnig sitt líf í London. Ég endaði á því að horfa mikið á sjónvarpið og borðaði reglulega smjördagshorn (e. croissants) í kvöldmatinn.“

Zaha var lánaður til Crystal Palace og Cardiff en skipti svo aftur yfir til Palace 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×