Erlent

Sætir gagn­rýni fyrir frí á meðan vetrar­stormar ganga yfir ríkið

Sylvía Hall skrifar
Ted Cruz á flugvellinum í Cancun.
Ted Cruz á flugvellinum í Cancun. Getty/MEGA/GC

Þingmaðurinn Ted Cruz frá Texas-ríki fór með fjölskyldu sína í frí til Cancun í Mexíkó í gær, á sama tíma og öflugir vetrarstormar ganga nú yfir suðurhluta Bandaríkjanna. Hefur hann fengið harða gagnrýni fyrir það að fara í frí á sama tíma og ríki hans glímir við mikla erfiðleika vegna stormanna.

Sjálfur segist Cruz hafa farið í ferðina dætra sinna vegna, en í yfirlýsingu sagðist hann hafa viljað vera „góður faðir“ eftir að dæturnar báðu um frí. 

Í það minnsta 24 eru látnir vegna vetrarstormanna og hefur frostið farið niður í átján stig. Stormarnir hafa jafnframt haft gífurleg áhrif á orkuinnviði, en meira en milljón hafa verið án rafmagns og frosnar vatnslagnir haft áhrif á bæði heimili og sjúkrahús í ríkinu. Búist er við því að rafmagnstruflanirnar verði viðvarandi næstu daga og hafa íbúar á ákveðnum svæðum verið beðnir um að sjóða neysluvatn vegna mögulegra skemmda.

Skólar hafa verið lokaðir vegna veðurs og segir Cruz dætur sínar hafa beðið um að fara í frí með vinum. Hann hafi því ákveðið að skipuleggja ferð til þess að vera góður faðir en sjálfur hefði hann upplifað rafmagnsleysi og verið án hita eins og margir aðrir íbúar ríkisins vegna veðursins.

„Stórkostlegasta ríkið í stórkostlegasta landi heims hefur verið án rafmagns,“ sagði þingmaðurinn í yfirlýsingu. Vikan hefði verið erfið fyrir íbúa en hann væri þó sjálfur í stöðugum samskiptum við yfirvöld varðandi stöðu mála.

Yfirvöld í ríkinu hafa sætt gagnrýni vegna hins laskaða kerfis en Hildur Heimisdóttir Salinas, sem búsett er í Coppell á Dallas-svæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í gær að mikil reiði væri á meðal íbúa ríkisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×