Innlent

„Erfitt að bregðast við því þegar fólk er með svo einbeittan brotavilja“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá komu fólks til landsins á Keflavíkurflugvelli.
Frá komu fólks til landsins á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að aukið eftirlit með komufarþegum á Keflavíkurflugvelli hafi meðal leitt til þess að fjölmargir panti leigubíl niður í bæ í Keflavík þangað sem ættingjar sækja þá.

Það er í trássi við leiðbeiningar um sóttkví fyrir fólk sem kemur til Íslands enda eiga viðkomandi að vera í sóttkví fram að seinni sýnatöku.

Á Covid.is stendur:

Ekki má sækja fólk sem ferðast til Íslands, þar með talið fjölskyldumeðlimi og vini. Þau sem koma til landsins þurfa að taka leigubíl, bílaleigubíl eða einkabíl sem búið er að fara með út á flugvöll.

Borið hefur á því að fólk virði ekki þessar reglur heldur sæki sitt nánast út á völl. Víðir var spurður að því hvort brugðist hefði verið við þessu. Svaraði hann því til að eftirlit með komufarþegum, sem hafa verið á annað hundrað daglega undanfarið, hafi verið aukið.

Hann nefndi þó að eitt vandamál væri að flugrútan sé hætt að ganga. Svo fáir hafi notað hana að ekki hafi verið rekstrargrundvöllur fyrir henni. Verið sé að leita leiða til að bjóða upp á aðrar lausnir eða koma flugrútunni í gang með einhverjum hætti.

„Við höfum líka séð að með þessu aukna eftirliti höfum við orðið vör við það að fólk er að taka til dæmis leigubíla niður í bæ í Keflavík og er sótt þar,“ segir Víðir.

„Brotaviljinn er ansi einbeittur í mörgum dæmum sem við höfum verið að sjá og það er erfitt að bregðast við því þegar fólk er með svo einbeittan brotavilja,“ segir Víðir.

Hann bætti við að leiðbeiningar um þetta væru í endurskoðun og væri hluti af þeim veikleikum á landamærum sem væru til skoðunar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.