Innlent

Tillögur að tilslökunum um eða eftir helgi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá upplýsingafundi dagsins þar sem fréttamenn voru mættir á ný í eigin persónu en fjarfundir höfðu verið venjan alveg síðan í október.
Frá upplýsingafundi dagsins þar sem fréttamenn voru mættir á ný í eigin persónu en fjarfundir höfðu verið venjan alveg síðan í október. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, mun skila Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, tillögum að tilslökunum innanlands um helgina eða fljótlega eftir helgi.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis vegna kórónuveirufaraldursins í dag.

Í gær greindist enginn með veiruna innanlands, sjötta daginn í röð. Þórólfur hefur sagt að hann vilji berja í brestina á landamærunum áður en ráðist verður í frekari tilslakanir innanlands og á morgun taka hertar aðgerðir á landamærunum gildi.

Þá verður öllum þeim sem hingað koma gert skylt að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi, svokölluðu PCR-prófi, áður en farið er um borð í flugvélina á brottfararstað. Komufarþegar munu áfram þurfa að fara í tvöfalda sýnatöku með fimm daga sóttkví á milli.

Einnig eru ríkari heimildir fyrir því en áður að skylda þá sem hingað koma í einangrun eða sóttkví í farsóttarhúsi auk þess sem skerpt er á ýmsum verkferlum á landamærunum með nýrri reglugerð þar að lútandi.

Aðspurður sagði Þórólfur ekki von á tillögum varðandi tilslakanir fyrir ríkisstjórnarfund á morgun.

Hann gaf lítið upp um hvað gæti leynst í tillögunum en sagði þó að það þyrfti að fara hægt í sakirnar. Þannig kæmu tillögur um að afnema grímuskylduna væntanlega „með seinni skipunum“ eins og hann orðaði það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×