Erlent

Umfangsmikil lögregluaðgerð við bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Getty

Lögregluaðgerð stendur yfir við bandaríska sendiráðið í Kaupmannahöfn þar sem eitthvað grunsamlegt mun vera á seiði. Lögreglan hefur lokað af Dag Hammerskjöld-götu á Austurbrú þar sem sendiráðið er staðsett. Búnaður sprengisveitar lögreglunnar mun meðal annars hafa verið notaður við aðgerðirnar.

Lögreglan greindi frá því á Twitter fyrr í kvöld að sendiráðið hafi verið rýmt. Götunni var lokað á meðan rannsókn stóð yfir á „grunsamlegum aðstæðum.“ Vegfarendur voru beðnir um að finna sér aðra leið en um Dags Hammerskjöld-götu til að komast leiðar sinnar en nú fyrir stundu greindi lögreglan frá því að aðgerðum væri að ljúka, hreinsunarstarf standi yfir og að búist sé við að gatan verði opnuð aftur fljótlega.

Ekstra Bladet greindi frá því að sprengjusveitin hafi verið á vettvangi og hafi meðal annars notast við vélmennið Rulle-Marie. Sjúkraflutningamenn, slökkvilið og hundar voru einnig á vettvangi.

Lögregla hefur ekkert gefið upp um það hvers eðlis aðgerðirnar voru eða hvaða grunsemdir var verið að rannsaka en aðgerðin hófst um klukkan 16:30 að staðartíma. Rétt fyrir klukkan sex voru íbúar í nágrenninu og sem búa fyrir ofan sendiráðið beðnir um að halda sig fjarri gluggum en skipunin barst frá manni með gjallarhorn að því er segir í frétt Ekstra Bladed.

Á sama tíma var borinn út úr húsinu hlutur sem helst líktist plastflösku. „Við fyrstu sýn lítur þetta út eins og plastflaska með límbandi á,“ sagði vitni á svæðinu við Ekstra Bladet. Til stóð að taka röntgen-myndir af hlutnum.

Blaðamaður B.T. á vettvangi segir að liðsmaður sprengjusveitarinnar hafi haldið á flöskunni en sá hafi að því er virðist ekki verið sérstaklega vel varinn hvað varðar sprengjuhlífðarbúnað.

Fréttin verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×