Innlent

„Traustið er laskað“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. vísir/Vilhelm

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir tímabært að skoða hvernig staðið hafi verið að breytingum á fyrirkomulagi leghálsskimunar. Rýna þurfi málið, forsendur og afleiðingar þess.

Í umræðum um störf þingsins vísaði Þorbjörg til ályktunar Læknafélags Íslands sem hefur bent á að mikilvæg sérhæfð störf hafi verið lögð niður með því að fela erlendum aðilum rannsóknarhluta krabbameinsleitar í leghálsi. Líkt og fram hefur komið mun Hvidovre sjúkrahúsið í Danmörku sjá um rannsóknir leghálssýna héðan í frá.

Embætti landlæknis, Félag íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna, Félag rannsóknalækna og meirihluti fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini hafa birt svipaðar ályktanir um að stefnt skuli að því allir þættir skimunarferilsins verði framkvæmdir hérlendis. 

„Gegn áliti allra þessara fagaðila fór ráðherra. Þessir fagaðilar vilja að allir þættir skimunarferlisins verði framkvæmdir hérlendis,“ sagði Þorbjörg og bætti við að seinagangur hafi einkennt ferlið. Sé þjónustan skilvirk og fagleg eigi þó ekki að skipta mestu máli hvar sýnin séu greind. 

Nú sé það hins vegar orðið sjálfstætt viðfangsefni að efla traust kvenna til kerfisins.

„Það er tímabært að rýna málið, forsendur og afleiðingar. Við erum einfaldlega komin á þann stað að traustið er laskað. Og það þarf að skoða þetta mál og ferlið allt til þess að endurheimta þetta traust.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×