Fótbolti

Lukaku skaut Inter á toppinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Allt í öllu.
Allt í öllu. vísir/Getty

Belgíski markahrókurinn Romelu Lukaku var óstöðvandi þegar Inter Milan tók á móti Lazio í síðasta leik helgarinnar í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Inter fékk dæmda vítaspyrnu á 22.mínútu og steig Lukaku á punktinn og kom liði sínu í forystu. 

Hann tvöfaldaði forystuna með marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi því 2-0 fyrir Inter.

Gonzalo Escalante minnkaði muninn fyrir Lazio eftir klukkutíma leik þegar aukaspyrna Sergej Milinkovic-Savic fór af Escalante og í netið.

Heimamenn voru fljótir að koma sér aftur í tveggja marka forystu og enn var Lukaku allt í öllu. Hann fékk þá boltann við miðlínu vallarins og skildi Marco Parolo eftir eins og að drekka vatn áður en hann lagði boltann fyrir Lautaro Martinez sem renndi knettinum í autt markið.

Fleiri urðu mörkin ekki og sannfærandi 3-1 sigur Inter staðreynd. Þeir tróna því á toppi deildarinnar eftir 22 umferðir, með einu stigi meira en nágrannarnir í AC Milan.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×