Erlent

Vinir Freyju í Danmörku safna fyrir börnin hennar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vinir Freyju Egilsdóttur í Danmörku hafa set í gang söfnun fyrir börn hennar.
Vinir Freyju Egilsdóttur í Danmörku hafa set í gang söfnun fyrir börn hennar. Vísir/Elín Margrét

Danskir vinir Freyju Egilsdóttur, sem var myrt í Malling á Jótlandi í lok janúar, hafa hafið söfnun til stuðnings börnum hennar. Í dag höfðu þegar safnast um 76 þúsund danskar krónur eða sem nemur um 1,6 milljónum íslenskra króna. Líkt og Vísir greindi frá fyrir helgi er einnig hafin söfnun hér á Íslandi fyrir börn og fjölskyldu Freyju.

„Freyja Egilsdóttir var svipt lífi á grimmilegan hátt föstudaginn 29. janúar 2021. Freyja var alltaf svo ljúf og stuðningsrík. Hún var Móðir með stóru M-i, og fyrir henni var það sjálfsagðasti hlutur í heimi að taka öðrum syni mannsins síns sem sínum eigin,“ segir í lýsingu vegna söfnunarinnar en þeir sem að henni standa hafa stofnað Facebook-hóp um söfnunina.

 Fyrrverandi eiginmaður Freyju og barnsfaðir sætir gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa orðið henni að bana. Maðurinn hafði áður hlotið tíu ára fangelsisdóm fyrir að hafa ráðið fyrrverandi kærustu sinni bana í nóvember 1995, en þau áttu saman son sem þá var tveggja ára gamall.

„Það er algjörlega hræðilegt að líf Freyju hafi verið tekið með þessum hætti og eftir standa þrjú börn sem nú þurfa að lifa með því að hafa misst móður sína. Tvö lítil börn sem hafa misst líffræðilega móður sína og fullorðinn sonur sem í annað sinn á ævinni hefur misst móður sína vegna sama morðingjans. Við fáum aldrei yndislegu Freyju aftur en við munum alltaf minnast hennar með bros á vör. Það allra mikilvægasta fyrir Freyju voru börnin hennar og við viljum gjarnan hjálpa þeim eins mikið og við getum,“ segir ennfremur í lýsingunni um söfnunina.

Steffen Petersen, vinur og skólabróðir Freyju, er einn þeirra sem að söfnuninni standa. Í samtali við fréttastofu í síðustu viku lýsti hann Freyju sem einstaklega lífsglaðri, hjálpsamri og góðri konu.

„Maður hefði aldrei búist við þessu yfir höfuð. Hvað þá að þetta kæmi fyrir svona ljúfa og góða konu. Freyja hafði einstaka lífsgleði, var ótrúlega ljúf og var alltaf til í að hjálpa öðum ef hún gat. Það gerir hún alltaf fyrir alla sem hún þekkti. Eða gerði, réttara sagt,“ sagði Steffen.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.