Erlent

Öldunga­deildin kallar til vitni í réttarhöldunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sætir ákæru fyrir embættisbrot vegna árásarinnar á þinghúsið í byrjun janúar.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sætir ákæru fyrir embættisbrot vegna árásarinnar á þinghúsið í byrjun janúar. Getty/Jabin Botsford

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti fyrir skömmu að kalla til vitni í réttarhöldum deildarinnar yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Trump er ákærður fyrir embættisbrot.

Af hundrað þingmönnum greiddu 55 atkvæði með því að kalla til vitni í réttarhöldunum. Þar var um að ræða alla fimmtíu demókrata deildarinnar auk fimm Repúblikana.

CNN-fréttastofan greinir frá því að fólk í herbúðum forsetans fyrrverandi sé nokkuð undrandi á gangi mála í öldungadeildinni. Fyrir daginn var talið að málinu yrði lokið í dag og því myndi ljúka með sýknu forsetans. Ekki var talið að nægilega margir Repúblikanar tækju sér stöðu með Demókrötum svo sakfelling næðist. Til þess þarf hreinan meirihluta, eða 67 af hundrað þingmönnum.

Saksóknarar í málinu hafa lýst yfir áhuga á því að fá fram vitnisburð fulltrúadeildarþingmannsins og Repúblikanans Jamie Herrera Beutler. Hún er ein þeirra tíu Repúblikana sem greiddi atkvæði með því að ákæra Trump.

Saksóknarar vilja sérstaklega fá upplýsingar frá henni um símtal milli Trumps og Kevin McCarthy, leiðtoga Repúblikana í fulltrúadeildinni. Í því er Trump meðal annars sagður hafa skammað McCarthy. Á hann að hafa sagt að múgurinn sem réðst inn í þinghúsið 6. janúar, og Trump er ákærður fyrir að hafa hvatt til dáða, hafi látið sig úrslit forsetakosninganna í nóvember meiru varða en McCarthy.

Að mati saksóknara kunni það að vera til marks um að Trump hafi í það minnsta verið fylgjandi því að múgurinn réðist inn í þinghúsið til þess að koma í veg fyrir að úrslit kosninganna yrðu staðfest.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.