Erlent

Vilja veita yfirmanni útlendingamála heimild til að banna fólki að fara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margir hafa kosið að flýja Hong Kong vegna aukinnar hörku af hálfu kínverskra yfirvalda.
Margir hafa kosið að flýja Hong Kong vegna aukinnar hörku af hálfu kínverskra yfirvalda. epa/Jerome Favre

Samtök málflutningsmanna í Hong Kong hafa gagnrýnt tillögu stjórnvalda um að veita yfirmanni útlendingamála vald til að koma í veg fyrir að einstaklingar yfirgefi borgina. Ákvörðunarvald hans myndi bæði eiga við um íbúa og ferðalanga.

Samtökin segja það valda áhyggjum að í tillögunum er hvorki kveðið á um það í hvaða tilvikum embættismanninum er heimilt að nýta vald sitt né hvers vegna það er nauðsynlegt. Þá eru engin dæmi tekin um það í hvers konar tilvikum hann kann að þurfa að beita því.

„Ef það á að veita einhverjum vald til að koma í veg fyrir för íbúa Hong Kong eða annarra frá svæðinu þá ætti það að vera dómstóla en ekki forstjóra að ákveða hvenær nauðsynlegt eða viðeigandi er að beita slíku ferðabanni,“ segir í ályktun samtakanna.

Frá því að ný lög um þjóðaröryggi tóku gildi í júní síðastliðnum hefur fjöldi aðgerðasinna og stjórnmálamanna flúið borgina. Þá hafa almennir borgarar einnig freistað þess að leita nýrra heimkynna, meðal annars í Bretlandi, Kanada og Taívan.

Samtök málflutningsmanna benda einnig á að nú þegar eru til úrræði til að koma í veg fyrir að einstaklingar ferðist af svæðinu, meðal annars í fyrrnefndum þjóðaröryggislögum. Þar segir að í ákveðnum tilvikum sé heimilt að gera vegabréf og önnur ferðagögn upptæk.

Guardian sagði frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×