Innlent

Vara­þing­maður Sam­fylkingarinnar yfir­gefur flokkinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og frá varaþingmennsku. Hún segir það mikil vonbrigði að uppstillinganefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi boðið nýliðum þrjú af fjórum efstu sætum á lista hennar til Alþingiskosninga.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og frá varaþingmennsku. Hún segir það mikil vonbrigði að uppstillinganefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi boðið nýliðum þrjú af fjórum efstu sætum á lista hennar til Alþingiskosninga. Vísir/Vilhelm

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og frá varaþingmennsku. Hún segir í bréfi sem hún sendi framkvæmdastjórn og stjórn flokksins í dag mikil vonbrigði að uppstillinganefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík hafi boðið nýliðum þrjú af fjórum efstu sætum á lista hennar til Alþingiskosninga.

Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu í kvöld en bréfið birti Jóhann Vigdís einnig inni á Facebook-hópi félaga Samfylkingarinnar. Jóhanna segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi ekki hugsað til framboðs fyrir annan flokk.

Jóhanna Vigdís hefur lengi verið í Samfylkingunni og frá árinu 2017 hefur hún setið sem varaþingmaður fyrir flokkinn, sinnt störfum í fjárlaganefnd, mótað nýsköpunarstefnu Íslands í nefnd nýsköpunarráðherra, setið í menntanefnd Samfylkingarinnar og setið í stjórnum SFFR, Kvennahreyfingarinnar og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, eins og hún rekur sjálf í póstinum sem hún sendi í dag.

„Það var því afar ánægjulegt að sjá áhuga fólks á þátttöku í flokksstarfinu aukast, að einhverju leyti í takt við gott gengi í skoðanakönnunum. Ég verð þó að viðurkenna að það eru mér vonbrigði að uppstillingarnefnd í Reykjavík kjósi að bjóða nýliðum, hæfum fólki sem sannarlega er meira en velkomið til starfa – og þó fyrr hefði verið – að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkurkjördæmum fyrir kosningar til Alþingis næsta haust,“ skrifar Jóhanna.

„Þetta eru ekki bara harkaleg skilaboð til mín persónulega heldur ekki síður til annarra í grasrót Samfylkingarinnar – sem hafa lagt ómælda uppbyggingarvinnu af mörkum undanfarin ár,“ skrifar Jóhanna.

Hún segist þó virða niðurstöðu uppstillinganefndar og vilja forystu flokksins.

„Um leið og ég þakka ykkur, vinum mínum og samferðafólki í Samfylkingunni, fyrir ánægjulegt samstarf undanfarin ár segi ég mig hér með frá varaþingmennsku, öllum ábyrgðarstörfum innan flokksins, og úr Samfylkingunni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×