Innlent

Samningur um leghálssýnarannsóknir í höfn og enginn skortur á sýnaglösum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sýnatökuglösin sem nú eru notuð heita SurePath en áður var notast við ThinPrep.
Sýnatökuglösin sem nú eru notuð heita SurePath en áður var notast við ThinPrep.

Verið er að leggja lokahönd á samning við Hvidovre-sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn um rannsóknir á íslenskum leghálssýnum. Búið er að ná samningum og aðeins eftir að klára formsatriði.

Þetta segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Greint var frá því í lok janúar að samið hefði verið um rannsókn á 2.000 sýnum sem sátu eftir þegar heilsugæslan tók við skimunum af Krabbameinsfélaginu en nú er búið að senda þúsund sýni til viðbótar til Danmerkur og unnið að því að pakka öðrum sýnum sem tekin voru í janúar.

Að sögn Óskars er stefnt að því að vinna upp hallann á næstu tveimur vikum og í lok febrúar ættu þær konur sem þá fara í skimun aðeins að þurfa að bíða í um tíu daga eftir niðurstöðu.

Þá er unnið að tæknilegum útfærslum til að gera ferlið sem sjálfvirkast, þannig að konur geti nálgast allar upplýsingar um ferlið á Heilsuveru. Þeirri vinnu á að ljúka í apríl.

Enginn skortur á sýnatökuglösum

Rannsóknarstofan á Hvidovre-sjúkrahúsinu notast við sýnatökuglös frá öðrum framleiðanda en Íslendingar hafa áður verslað við. Þess vegna bar á því við breytinguna um áramótin að vöntun var á glösunum.

Sýnatökuglösin fær Heilsugæslan frá Hvidovre og dreifir meðal annars til kvensjúkdómalækna.

„Við fengum fyrstu 5.000 sýnatökuglösin á síðasta ári og dreifðum þeim út og svo fengum við fleiri og nú er enginn skortur,“ segir Óskar. Um 20.000 glös séu nú til og eigi að duga fram á haust.

Samningurinn við sjúkrahúsið danska er til þriggja ára, með þriggja mánaða uppsagnarfrest.

Óskar segir alla umræðu af hinum góða, þar sem hún leiði til þess að fleiri mæti í skimun, en segir mikilvægt að fólk treysti því að skimunarferlið sé gott og traust.

„Við erum að taka sýni á fleiri stöðum en áður, við erum að taka sýni í nærumhverfi fleiri íbúa. Við erum að beita breyttum greiningaraðferðum, sem eiga að auka næmnina. Þannig að við erum að stefna að aukinni þátttöku og nákvæmari greiningum. Það mun leiða til þess að við greinum fleiri fyrr.“


Tengdar fréttir

Tvö þúsund sýnin hafa verið send út

Um tvö þúsund uppsöfnuð leghálssýni eftir flutning á skimunarþjónustu frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar hafa verið send út til greiningar í Danmörku. 

Konur sem áttu sýni í pappakössunum þurfa að koma aftur í sýnatöku

Í Danmörku verður ekki hægt að fullrannsaka þau tvö þúsund leghálssýni sem lágu í nokkrar vikur í pappakössum. Hluti kvennanna verður því kallaður í sýnatöku á ný. Læknir segir óskiljanlegt að Krabbameinsfélagið hafi skilið við verkefnið með þessum hætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.